Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hver og einn með sína sérvisku við að reykja kjöt

28.12.2022 - 14:25
Mynd: RÚV / Sölvi Andrason
Það hefur hver og einn sína sérvisku við að reykja kjöt, segir bóndi í Aðaldal sem er tók síðustu lærin úr reyk rétt fyrir jól. Hann er sannfærður um að enginn gerir betra hangikjöt en hann sjálfur.

Byrjaði að reykja jólahangikjötið um miðjan nóvember

Þótt reykkofum heima við bæi hafi fækkað í áranna rás finnast í öllum sveitum bændur sem reykja kjöt sitt sjálfir. Sæþór Gunnsteinsson, bóndi á Presthvammi í Aðaldal, er einn þeirra. Hann sótti síðustu lærin í reykkofann rétt fyrir jól, en byrjaði að reykja jólahangikjötið um miðjan nóvember.

„Þetta er hluti af búskapnum, en bara svo gaman líka“

Hann segir að við reykinguna noti hver bóndi sína aðferð og uppskriftin sé helst ekki gefin upp. En verkunin tekur langan tíma og til dæmis fóru fyrstu lærin í verkun í október og þau fá alls konar meðhöndlun áður en þau eru hengd upp í reykkofann. „Ég er búinn að gera þetta í nokkur ár. Þetta er hluti af búskapnum, en bara svo gaman líka.

Allir segjast verka besta hangikjötið

„Menn segja að þeir verki alltaf besta kjötið sjálfir, er það eitthvað öðruvísi hjá þér?“
Nei, nei, það er alveg hárrétt. Það eru allir bestir í þessu, allir með sitt best. Ég er náttúrulega bestur með þetta, það er bara svoleiðis.“