Þrettán tungumál töluð á tannlæknastofu í Reykjanesbæ

Mynd: RÚV / RÚV

Þrettán tungumál töluð á tannlæknastofu í Reykjanesbæ

06.12.2022 - 13:04

Höfundar

„Eitt af því sem mér fannst mikilvægt að geta veitt heilbrigðisþjónustu á móðurmáli. Það er að segja að heilbrigðisstarfsmaður gæti talað móðurmál sjuklings," segir Dmitry Torkin, tannlæknir sem hefur sett á laggirnar glæsilega tannlæknastofu við Hafnargötu í Reykjanesbæ.

Þar starfa sex tannlæknar, fjórir af erlendu bergi brotnir auk fleiri starfsmanna á stofunni en þar eru töluð hvorki meira né minna en þrettán tungumál. Tannlæknastofan er opin sjö daga vikunnar, meðal annars til að koma til móts við fólk sem kemst ekki á hefðbundnum opnunartimum tannlæknastofa. 

„Við tölum 13 tungumál reiprennandi. Getum talað við langflesta sem koma hér inn á þeirra móðurmáli. Mér finnst það vera algjört grundvallaratriði til að sjúklingur treysti okkur, segir hann.

Dmitry er frá Rússlandi en kom ásamt foreldrum sínum til Íslands þegar hann var tólf ára í leit að betri lífsgæðum. „Á þessum tíma búið að vera mikið um stríð í Rússlandi. Þeim fannst mikilvægt að komast burtu frá þessu. Lífsgæði á Íslandi eru allt önnur en heima," segir hann. Foreldrar hans voru bæði læknar og höfðu hugsað sér að starfa sem slíkir á Íslandi. „Þá gekk það ekki alveg, foreldrar mínir reyndu í sjö ár að fá menntun sín staðfesta," Þegar það gekk ekki þá fóru þau til Svíþjóðar þar sem þau fengu hana metna eftir að hafa undirgengist ákveðin próf. Eftir það flökkuðu þau milli Íslands og Svíþjóðar og störfuðu sem læknar. „Gaman að segja frá því að mamma mín vann í eitt og hálft ár í Keflavík, hún gerði það strax eftir að hun fékk leyfið í Svíþjóð. Þá gildir það strax á Íslandi," segir hann.

Dmitry kláraði menntaskóla og fór svo í tannlækningar við Háskóla Íslands. Hann útskrifaðist þaðan árið 2014 og fór þá að vinna á tannlæknastofu á Höfn í Hornafirði. Síðan vann hann á nokkrum stofum þar til hann opnaði sína eigin í Keflavík. „Þegar ég kom hingað til Keflavíkur þá sá ég að það var mjög mikil meðferðarþörf hérna, þess vegna er ég eiginlega kominn hingað," segir hann. Um 20-30 prósent sjúklinganna eru af erlendum uppruna. Tengdamóðir Dmitry vinnur á stofunni og hefur tekið að sér að kenna íslensku á stofunni.  „Þetta er lestrarefnið hérna í hádeginu," segir hún og bendr á nokkrar barnabækur sem margir kannast við. Það eru allir látnir læra í hádeginu að lesa. Tumi er lítill eða Lára. Við erum að reyna að stuðla að því að allir læri þó það sé nú ekki nema bara til að bjarga ser i vinnunni," segir Birna.

Rætt var við Dimitry í Landanum. Horfa má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.