Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sprækir Spánverjar vilja slökkva vonarneista Afríku

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Sprækir Spánverjar vilja slökkva vonarneista Afríku

06.12.2022 - 09:44
Marokkó er síðasta von Afríku til að komast í átta liða úrslit Heimsmeistaramótsins í Katar, en Marokkómenn mæta Spánverjum í sextán liða úrslitum í fyrri leik dagsins. Þeir hafa aðeins fengið á sig eitt mark í keppninni en mæta sterku liði Spánar sem hafa skorað níu, eins og Frakkar, sem er mest allra liða það sem af móti.

Marokkó kom mjög á óvart í riðlakeppninni og unnu sinn riðil og góða sigra gegn Belgíu og Kanada. Marokkó var annað af tveimur ríkjum Afríku til að komast í sextán liða úrslitin en Senegal féll úr leik eftir tap gegn Englendingum.

Þetta er aðeins í annað sinn sem Marokkómenn komast í sextán liða úrslit. Þeir voru í þessari stöðu árið 1986 en hefur aldrei tekist að komast lengra. Nú eru þeir líklegri sem aldrei fyrr, enda ósigraðir í átta síðustu leikjum. Vörnin er þeirra ær og kýr en í þessum átta leikjum hafa þeir aðeins fengið á sig tvö mörk. Þar liggur þeirra styrkur en andstæðingurinn elskar að sækja og skora mörk.

Til þessa á mótinu hafa Spánverjar verið 77 prósent meira með boltann en andstæðingarnir, en það er langhæsta hlutfallið á mótinu. Það er ekki síst fyrir tilstilli Barcelona miðju Spánar, en þeir Pedri og Gavi hafa stýrt miðjuspili Spánar og búið til urmul marktækifæra. Þeir minna um margt á ógnarsterka miðju Spánar framan af öldinni þegar þeir Xavi og Andrés Iniesta stýrðu leikjum frá upphafi til enda og áttu stærstan þátt í heimsmeistaratitilinum 2010, þegar HM var haldið í Suður-Afríku. 

Spánverjar hafa skorað níu mörk á mótinu og tveir þeirra gætu gert atlögu að gullskónum í ár, Alvaro Morato með þrjú mörk og Ferran Torres með tvö. Frakkinn Kylian Mbappé er með fimm og ólíklegt að Spánverjunum takist að saxa mikið á það forskot gegn marokkóska varnarvíginu.

Pressan verður á Spánverjum en þeir féllu úr leik í sextán liða úrslitum á síðasta heimsmeistaramóti 2018. Í riðlakeppninni á HM í Rússlandi mættu þeir Marokkómönnum og tókst naumlega að tryggja sér 2-2 jafntefli. Það bendir því flest til þess að fyrri leikur dagsins, þessi nágrannaslagur ríkjanna við Gíbraltarsund, verði mjög spennandi, en hann verður í beinni útsendingu á RÚV og hefst kl. 15.