Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sækja pakka í ísbúðir, líkamsræktarstöðvar og sjoppur

06.12.2022 - 09:08
Mynd: RÚV / Sölvi Andrason
Afgreiðslufólk er vant að þurfa að ganga í ýmis verk, og æ oftar hlutverk pósthússtarfsmannsins. Ísbúðir og líkamsræktarstöðvar eru nú meðal staða sem hægt er að nálgast póstsendingar á.

Pylsa, ís og póstsending

Aðdragandi jóla er annasamur tími, og þá sérstaklega fyrir pósthússtarfsmenn sem vinna baki brotnu við að koma öllum sendingum í réttar hendur í tæka tíð fyrir jólin. Koma á pósthús hefur verið órjúfanlegur hluti aðventunnar fyrir landsmenn þar sem þeir flykkjast í hópum til að senda eða sækja póst. Nú virðist hins vegar tíðin önnur og líkur á að pósthúsferðum landsmanna fari fækkandi því hægt er að nálgast pakka á ótrúlegustu stöðum: í sjoppum, líkamsræktarstöðvum, samlokustöðum og jafnvel ísbúðum. 

„Það er búið að vera töluvert álag á okkur, menn eru mjög duglegir að versla á netinu,“ segir Axel Grettisson, stöðvarstjóri N1 á Akureyri. Á þeirri bensínstöð er tekið á móti u.þ.b. 150 sendingum á dag, en sú tala er töluvert hærri eftir afsláttardaga á borð við svartan föstudag og netmánudag. 

En hafið þið alveg pláss fyrir þetta allt?

„Ekki alltaf, stundum notum við kaffistofuna okkar og við notum lagerinn okkar en við höfum ýmis úrræði til að redda þessu,“ segir Axel.

Og plássleysið gerði vart við sig á fleiri stöðum þar sem víða mátti sjá kassa flæða um gólf.

„Við erum náttúrlega ekki pósthús en við erum orðin gott líkan að því“

Segja má að pósthússtarfið fari kannski aðeins út fyrir hefðbundna starfslýsingu starfsmanna á þessum afhendingarstöðum. „Ég sótti um að vera bensínstarfsmaður þannig þetta er ekki alveg það sem ég bjóst við,“ segir Sigurður Gísli Ringsted, starfsmaður Orkunnar.

En hvernig fílarðu þetta?

„Þetta er ágætt svo sem, maður er allavega að gera eitthvað. Þetta er ekkert eitthvað það mikið mál. Eða stundum þegar koma ógeðslega margir að sækja pakka í einu þá er alveg heldur mikið að gera,“ segir Sigurður.

Og Daníel Magnússon, verslunarstjóri Extra á Akureyri tekur í sama streng. „Við erum náttúrlega ekki pósthús en við erum orðin gott líkan að því. En það er bara gaman að þessu.“