Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Portúgal lék á als oddi gegn Sviss - sjáðu mörkin

epa10352922 Goncalo Ramos of Portugal celebrates after scoring during the FIFA World Cup 2022 round of 16 soccer match between Portugal and Switzerland at Lusail Stadium in Lusail, Qatar, 06 December 2022.  EPA-EFE/JOSE SENA GOULAO
 Mynd: EPA-EFE - LUSA

Portúgal lék á als oddi gegn Sviss - sjáðu mörkin

06.12.2022 - 18:44
Portúgalska landsliðið fór illa með Sviss í leik liðanna í 16 liða úrslitum á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu rétt í þessu. Leikar enduðu 6-1 þar sem ungstirnið Goncalo Ramos skaust fram á sjónarsviðið, en hann fékk tækifærið í stað Cristiano Ronaldo.

Ronaldo á bekknum en Ramos stjarnan

 

Goncalo Romas, ungur framherji Benfica, kom inn í byrjunarlið Portúgala í stað Cristiano Ronaldo. Fernando Santos, þjálfari liðsins, ku hafa verið ósáttur við brögð Ronaldo er honum var skipt út af gegn Suður Kóreu. Ramos var einungis að spila sinn fjórða landsleik en þakkaði traustið með stórglæsilegu marki. Þrykkti hann boltanum í þaknetið af stuttu færi og Yann Sommer í marki Sviss var vonleysið uppmálað.

Stuttu síðar var komið að hlut varnartröllsins Pepe en þrátt fyrir að vera 39 ára gamall virðist hann engu hafa gleymt. Reis hann manna hæst í teignum og kom Portúgal í tveggja marka forystu eftir hornspyrnu. Varð hann þar með elsti leikmaður sem skorar í útsláttarkeppni á HM. Tók hann metið af Roger Milla sem var 38 ára er hann skoraði á HM 1990 gegn Kólumbíu fyrir Kamerún. 

Svisslendingar ógnuðu marki Portúgal ekki ýkja mikið en Xherdan Shaqiri átti ágætis aukaspyrnu um miðbik fyrri hálfleiks sem fór rétt fram hjá. Pepe er 39 ára og 233 daga gamall.

 

Svisslendingar voru heillum horfnir og Portúgal gekk á lagið. Ramos, sem hafði einungis leikið níu mínútur á mótinu þar til í dag, bætti við sínu öðru mark með snyrtilegri afgreiðslu. Þeir voru þó langt því frá hættir en vinstri bakvörðurinn Raphael Guerrreiro skoraði fjórða mark þeirra eftir glæsilega sókn.

Fjórða markið virtist slökkva örlítið á Portúgölum í örlitla stund þar sem Sviss skoraði strax í næstu sókn, er varnarmaðurinn Manuel Akanji skoraði eftir hornspyrnu. Var það fyrsta mark sem Sviss skorar í útsláttarkeppni frá því á heimavelli í Sviss á HM 1956.

Ramos var þó hvergi nærri hættur en á 64. mínútu hafði hann fullkomnað þrennu sína, og mörkin voru hvert öðru glæsilegra. Það sem meira er, Cristiano Ronaldo mun ekki eiga greiða leið aftur í byrjunarlið portúgalska liðsins. 

Flest allir í portúgalska liðinu áttu afbragðs leik en Joao Felix og Bruno Fernandes mega einnig leggjast sáttir á koddann eftir dagsverk sitt.

Á 72. mínútu kom Ronaldo in á fyrir Ramos. Fékk hann fyrirliðabandið og gífurleg fagnaðarlæti brutust út á vellinum. Þá fóru Otávio og Joao Felix einnig út af Ricardo Horta og Vitinha komu inn á. Ronaldo skoraði en var þó langt fyrir innan og markið því dæmt af.

Það var að lokum varamaðurinn Rafael Leao sem að skoraði sjötta mark Portúgala í leiknum. Ótrúleg frammistaða þar sem þeir fóru virkilega illa með lið Sviss, sem er jafnan nokkuð heilsteypt. Þeir hafa þó lokið leik.

Portúgal mætir hins vegar Marokkó í 8 liða úrslitum á laugardaginn kemur. Marokkómenn höfðu betur gegn Spánverjum eftir vítaspyrnukeppni fyrr í dag.