Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Neyslan eykst úti en ferðamenn eyða meiru hér

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Neysla Íslendinga í verslunum innanlands hefur jafnt og þétt dregist saman allt þetta ár. Erlendir ferðamenn hafa hins vegar komið inn á móti og er staða verslunar og þjónustu því góð.

Þetta kemur fram í greiningu hagfræðideildar Landsbankans á stöðu verslunar og þjónustu. Una Jónsdóttir forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans segir ljóst að neysla Íslendinga sé að taka breytingum eftir að hafa aukist mikið í heimsfaraldrinum. 

„Við sjáum að Íslendingar eru að eyða minna í verslunum hér á landi en þeir gerðu þegar faraldurinn stóð sem hæst. Það náttúrulega skýrist af því að fólk er mikið að fara til útlanda og versla meira þar og kannski aðeins minna hérna heima.“

Neysla Íslendinga helst þó mikil og er enn meiri en hún var fyrir heimsfaraldur. Jólaösin er þá hafin og segir Una mega búast við að innlend kortavelta Íslendinga aukist aftur, hún mælist alla jafna fjörutíu prósent meiri í desember en hina mánuði ársins. Fataverslun eykst þá mest þar sem hún hefur verið áttatíu og fimm prósentum meiri en alla jafna.

Neysla Íslendinga hefur minnkað og færst út fyrir landsteinana, en endurkoma ferðamanna hefur þá líka sín áhrif.

„Þeir eyða talsverðu hér á landi. Meira í þjónustu en í verslun. Þannig það eru ákveðnar breytingar að eiga sér stað. Neysla okkar að einhverju leyti að færast út en á móti eru ferðamennirnir að koma hingað, dvelja lengur og eyða meiru en þeir gera fyrir faraldurinn. Það er uppsöfnuð ferðaþörf hjá mörgum.“ 

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir