Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Einkaneysla skilar auknum tekjum í ríkiskassann

06.12.2022 - 11:34
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Gert er ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn með rúmlega 118 milljarða króna halla á næsta ári samkvæmt breytingartillögu meirihluta fjárlaganefndar. Önnur umræða um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar hefst á Alþingi í dag.

Frumvarpið var afgreitt úr fjárlaganefnd í gær. Breytingartillögur meirihluta fjárlaganefndar eru að mestu í samræmi við þær breytingartillögur sem fjármálaráðherra kynnti í síðustu viku. Tekjuáætlun frumvarpsins hækkar um 23,7 milljarða frá því það var fyrst lagt fram. Virðisaukaskattur skilar þannig 12,6 milljörðum meira í ríkiskassann en upphaflega var gert ráð fyrir og tekjuskattur lögaðila 8 milljörðum. Aukin einkaneysla og fjölgun ferðamanna hér á landi skýra þessa hækkun að mestu leyti.

Á móti lækka áætlaðar tekjur ríkisins af tekjuskatti einstaklinga um 2,8 milljarða vegna verðbólgu og hækkun á hlutfalli útsvars sem rennur til sveitarfélaga. Í breytingartillögum ráðherra er gert ráð fyrir að sveitarfélögin fái 5 milljarða til að mæta auknum kostnaði við málefni fatlaðs fólks. Sveitarfélögin hafa þó kallað eftir mun hærri fjárframlögum.

Önnur umræða um fjárlagafrumvarpið hefst á Alþingi í dag og er búist við að hún standi fram á kvöld.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV