Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bjarni sér ekki fjársveltið hjá Sjúkratryggingum

Mynd: Skjáskot / RÚV
María Heimisdóttir treysti sér ekki til að reka Sjúkratryggingar Íslands innan þess ramma sem fjárlögin settu stofnuninni og sagði upp störfum á dögunum. 100 milljónum var bætt við reksturinn í meðförum Alþingis en það er ekki nóg að mati fráfarandi forstjóra.

María var skipuð forstjóri Sjúkratrygginga Íslands í nóvember 2018. Hún var skipuð til fimm ára en ákvað í síðustu viku að afhenda Willum Þór Þórssyni, heilbrigðisráðherra, uppsagnarbréf sitt. Uppsögn hennar var gerð opinber í gær þegar hún upplýsti starfsfólk Sjúkratrygginga um ákvörðun sína í tölvupósti.

Í tölvupóstinum útlistar María ástæður þess að hún sagði upp. Hún segir að í þau fjögur ár sem hún hafi starfað sem forstjóri hafi hún unnið að því að sækja meira fé frá stjórnvöldum, bæði til að geta sinnt sífellt fleiri verkefnum sem stofnunin hefur á sinni könnu og til að geta boðið samkeppnishæf laun. Það hafi ekki tekist og því axli hún ábyrgð með því að segja af sér.

María hefur ekki viljað veita fréttastofu viðtal vegna málsins en í umsögn við fjárlagafrumvarp næsta árs er afstaða hennar til fjárveitinga ríkisvaldsins rakin.

Hefðu þurft 200 milljónir en fá 100

Áður en lengra er haldið verður að gera greinarmun á veltu Sjúkratrygginga annars vegar og rekstrarfé hins vegar. Sjúkratryggingar Íslands velta gríðarlegum fjármunum, 130 milljörðum króna í fyrra nánar tiltekið. Þessir fjármunir fara í að semja við einkaaðila og opinbera aðila í heilbrigðisþjónustu, annast afgreiðslu sjúkratrygginga fyrir íslenskan almenning og umsýsla í kringum kaup á hinum ýmsu lækningatækjum fyrir sjúklinga. Um þetta er ekki ágreiningur í þessu tilviki og í raun hefur velta Sjúkratrygginga aukist um ríflega 20 milljarða á undanförnum fimm árum.

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Velta Sjúkratrygginga í fyrra nam rúmlega 130 milljörðum króna í fyrra og hefur hún aukist umtalsvert á síðustu árum. Á sama tíma hefur rekstrarfré til stofnunarinnar dregist saman á föstu verðlagi.

Það sem um er deilt hins vegar er rekstrarféð, það er þá fjármuni sem Sjúkratryggingar fá til að sinna þeim verkefnum sem nefnd eru hér að ofan. Í ofangreindri umsögn til fjárlaganefndar segir að á sama tíma og velta hafi stóraukist og verkefnum fjölgað, þá hafi rekstrarfé minnkað um 73 milljónir á föstu verðlagi. Að mati fráfarandi forstjóra hefði þurft að bæta 200 milljónum króna á fjárlögum til að halda óbreyttum rekstri. All undir því hefði þýtt meiri hagræðingu ofan á hagræðingu síðustu ára. Ef hins vegar markmiðið væri að efla þjónustu og getu stofnunarinnar hefði þurft 400 milljónir króna. Að mati Sjúkratrygginga duga þær 100 milljónir sem við bættust í meðförum þingsins skammt.

Einnig er á það bent að með auknum fjárveitingum væri í raun hægt að spara ríkissjóði fjármuni. Auknar fjárheimildir þýði aukið eftirlit og eftirfylgni sem kæmi í veg fyrir hvers konar tryggingasvik, ofrukkanir og aðra sóun á útgjöldum.

Vildi halda Maríu

Samkvæmt heimildum fréttastofu reyndi heilbrigðisráðherra að telja Maríu hughvarf þar sem almenn ánægja var með hennar störf. Nokkru áður en María tók við embættinu 2018 hafði Ríkisendurskoðun gert margvíslegar og harðorðar athugasemdir við fjölmarga þætti í rekstri Sjúkratrygginga. Í nýlegri eftirfylgniúttekt Ríkisendurskoðunar kemur fram að brugðist hafi verið við flestum ábendingum sem gerðar voru 2018 en að efla þurfi starfsemina enn frekar.

Sér ekki fjársveltið

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, er ósammála því að stofnunin sér fjársvelt. Eftir ríkisstjórnarfund í morgun vísaði Bjarni til þess að 100 milljónum hafi verið bætt í reksturinn. „Ég sé nú ekki mikið fjársvelti þar hjá stofnuninni,“ sagði Bjarni og bætti við að uppsögnin væri merki um átök innanhúss og vísaði á heilbrigðisráðherrann í þeim efnum.

 

Mynd með færslu
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

 

Bjarni kvaðst hins vegar hafa meiri áhyggjur af útistandandi samningum. Líkt og fjallað hefur verið um undanfarið hafa sérgreinalæknar verið án samnings í fjögur ár. Þetta hefur meðal annars leitt til þess að sérgreinalæknar hafa rukkað sjúklinga um gjöld sem annars hefðu ekki verið rukkuð. „Það sem ég hef kannski frekar haft áhyggjur af varðandi Sjúkratryggingar er að það hafi ekki tekist samningar sem við treystum Sjúkratryggingum til þess að klára við hina ýmsu aðila. Það hefur valdið mér áhyggjum.“

 

Magnús Geir Eyjólfsson