Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

200 króna varaflugvallagjald gæti skilað 1,5 milljörðum

06.12.2022 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Verði frumvarp innviðaráðherra um varaflugvallagjald samþykkt gæti það skilað einum og hálfum milljarði króna til að byggja upp flugvellina á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík. Þingmaður segir að tekjur til nýframkvæmda á völlunum hafi hrunið þegar gjaldið var aflagt 2011.

Fyrir fjórum árum leiddi Njáll Trausti Friðbertsson. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins, starfshóp sem lagði til að varaflugvallargjald yrðir tekið upp að nýju. „Og nú hefur ráðherra lagt fram frumvarp þar sem er gert ráð fyrir 200 krónum í varaflugvallagjald á hvern fluglegg. Þá gætu þetta verið 1400-1500 milljónir á ári sem þetta myndi skila til að verja í þetta flugvallakerfi. Sem hefur verið mjög vanbúið frá 2011 þegar gamla varaflugvallagjaldið var lagt af,“ segir Njáll Trausti. Varaflugvallagjald var lagt af 2011, eftir gagnrýni EES sem þótti það fela í sér mismunun. Þá var það aðeins innheimt í millilandaflugi. 

Þrengsli á varavöllum draga úr öryggi og auka losun

Flugvellirnir á Egilsstöðum og Akureyri eru með svo lítil flughlöð að þeir geta ekki tekið við nema broti af umferðinni um Keflavík þegar völlurinn þar lokast. Þetta veldur því að flugfélög skipuleggja stundum flug þannig að flugvellir í Skotlandi og Noregi eru varavellir. Fyrir vikið þurfa vélarnar að bera meira eldsneyti sem eykur losun. 

Í grein sem Njáll Trausti skrifar á vefinn Austurfrétt kemur fram að mikilvægt sé að hefja stækkun flughlaðsins á Egilsstöðum sem fyrst. Leggja akbraut við hlið flugbrautarinnar sem einnig mætti nýta sem stæði í neyðartilvikum. Þá þurfi að lengja flugbrautina um 400 metra til að stærri fraktvélar geti þjónað útflutningi á eldislaxi í framtíðinni. Aðalatriðið sé að vellirnir standi undir hlutverki sínu sem varavellir nú þegar flug til og frá Keflavík er að aukast. „Við sjáum að nú spáir ISAVIA að á næsta ári muni umferðin til og frá Keflavík og ferðamenn til landsins verða á svipuðum nótum og metárið 2018. Þannig að við erum komin upp í þessa tölu og þessa miklu flugumferð sem við þekktum hérna fyrir COVID. Það er lykilatriði ef það lokast í Keflavík og vélarnar komast ekki út fyrir landsteinana, eiga erfitt með að bíða, þá hafa þær þessa þrjá velli. Þetta snýst raunverulega um að koma vélunum hratt og vel niður á flugvallarstæði á jörðu niðri,“ segir Njáll Trausti. 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV