Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Klofningur sýnir sig með þeirri stöðu sem nú er uppi

05.12.2022 - 08:18
Ríkissáttasemjari 2. des 2022
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Forseti ASÍ segir að betra hefði verið ef verkalýðshreyfingin mætti samrýmdari til kjaraviðræðna en raunin er. Klofning innan hreyfingarinnar raungerist með þeirri stöðu sem nú er uppi í kjaraviðræðum.

Sautján aðildarfélög Starfsgreinasambandsins skrifuðu undir kjarasamning við Samtök atvinnulífsins um helgina. Formenn VR og Eflingar hafa sagst ekki geta sætt sig við að þessi samningur verði til hliðsjónar í viðræðum þeirra. Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, sagði að tilraun hafi verið gerð til skemmdarverka með því að leka upplýsingum um samninginn í fjölmiðla áður en skrifað var undir. 

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands og forseti ASÍ segir að samningurinn sem skrifað var undir um helgina hefði ekki hentað iðnaðarmönnum. Hann hefði talið vænlegra að verkalýðshreyfingin stæði sameinuð í viðræðunum, en eftir að þing ASÍ leystist upp í haust hafi klofning innan hreyfingarinnar raungerst með stöðunni sem nú er uppi.

„Eins og ég sagði eftir þingið þá taldi ég að við gætum tekið jákvæð skref fram á við til að þétta raðirnar inn á við. Bara með því að kjósa forystu sambandsins eins og þingið á að sinna og taka á. Það tókst ekki og nú erum við komin á þennan stað. Það sem við þurfum að gera er að vinna með okkar innri mál og finna leiðina fram á við.“