Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hálfs árs dvöl í Himnahöllinni kínversku að baki

epa10347904 Staff works on the return capsule of the Shenzhou-14 manned spaceship after it touched down safely at the Dongfeng landing site, Inner Mongolia Autonomous Region, China, 04 December 2022. The three taikonauts of the Shenzhou-14 crew returned to Earth after completing a six-months mission aboard China's space station.  EPA-EFE/XINHUA / Li Gang CHINA OUT / MANDATORY CREDIT  EDITORIAL USE ONLY
 Mynd: EPA-EFE - XINHUA NEWS AGENCY
Velheppnaðri, hálfs árs dvöl þriggja kínverskra geimfara í Tiangong geimstöðinni, eða Himnahöllinni, lauk í gær þegar þeir lentu heilu og höldnu í Innri-Mongólíu.

Geimvist þremenninganna hófst snemma í júní en samkvæmt fréttum kínversku Xinhua-fréttaveitunnar eru þau öll við góða heilsu. Megintilgangur leiðangursins, Shenzhou-14,  var að halda áfram samsetningu stöðvarinnar en seinasta einingin var tengd henni í síðasta mánuði.

Vonir standa til að stöðin verði tilbúin fyrir árslok. Leiðangursstjóri var Chen Dong en leiðangursmenn auk hans voru þau Cai Xuzhe og Liu Yang, fyrsti kínverski kvenkyns geimfarinn.

Hún sagði við heimkomuna að dvölin í Himnahöllinni væri ógleymanleg en sagðist hafa saknað heimahaganna. Liu kvaðst fegin að vera komin heim og að hún hlakkaði til að hitta fólkið sitt og landa sína. 

Chen Dong er fyrsti kínverski geimfarinn til að dvelja yfir tvö hundruð daga á sporbraut um jörðu. Fyrstu vaktaskiptin í Tiangong urðu fyrir tæpri viku þegar Shenzhou-15 leiðangurinn kom þangað það helsta hlutverk framundan að ljúka þeim verkþáttum sem þarf svo stöðin verði að fullu starfhæf. 

Geimferðaáætlun Kínverja er mjög metnaðarfull, þeir hafa sent ómönnuð könnunarför til tunglsins og Mars að ógleymdu því að vera þriðja ríkið til að senda menn á sporbaug. Himnahöllin er þó dýrasta djásnið í áætluninni en búist er við að hún verði starfhæf í um áratug.