Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tólftu umferðinni í Olísdeild karla lauk í kvöld

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Tólftu umferðinni í Olísdeild karla lauk í kvöld

04.12.2022 - 19:56
Í dag lauk tólftu umferð Olísdeildar karla í handbolta með tveimur leikjum. Fyrir norðan áttust við heimamenn í KA og Grótta en í Garðabæ áttust við Stjarnan og Afturelding.

KA 33- 33 Grótta - Grótta jafnar leikinn með vítakasti er leiktími var liðinn

Leikurinn var jafn og spennandi og í byrjun hans skiptust liðin á að leiða en KA menn voru ávallt skrefinu á undan að skora og komust mest í þriggja marka forskot í stöðunni 9-6 á 14. mínútu. Grótta náði að jafna í stöðunni 10-10 á 19. minútu og tókst svo að komast yfir á 22. mínútu er Hannes Grimm skoraði eitt þriggja marka sinna í þessum leik. Frá þeirri stundu var Grótta leiðandi aðilinn í leiknum en staðan var jöfn í hálfleik 15-15. Strax í byrjun seinni hálfleiks tók Grótta forystuna er Birgir Steinn skoraði sextánda mark síns liðs og alveg fram að 44. mínútu hans var Grótta yfir tveim til þremur mörkum. KA jafnaði leikinn 24-24 með marki frá Patrek Stefánssyni og eftir það skiptust liðin á að leiða. Heimamenn í KA voru marki yfir 33-32, með boltann í sókn en Ísak Arnar varði skot Patreks og nokkrar sekúndur voru eftir. Grótta nær boltanum og hleypur í sókn og fær dæmt vítakast er leiktíminn er liðinn. Birgir Steinn Jónsson skoraði úr vítakastinu og jafnar leikinn. KA fór illa að ráði sínu hér á lokasekúndunum en liðið tapar niður tveggja marka forystu á 25 sekúndum en KA hefur ekki unnið leik á heimavelli síðan 6. október er þeir lögðu ÍR.  Bæði lið halda sæti sínu í deildinni en Grótta er nú komið með 10 stig í níunda sæti. KA er í tíunda sæti með átta stig.

Á 23. mínútu meiddist Einar Birgir Stefánsson leikmaður KA illa á fæti og var hann stuttu seinna fluttur í burtu í sjúkrabíl.

Stjarnan 26 - 29 Afturelding 

Síðast þegar þessi lið áttust við í Garðabæ endaði leikurinn 26-26 þar sem Stjarnan vann upp tíu marka forskot Aftureldingar í seinni hálfleik. 

Leikurinn í kvöld var jafn og spennandi en Stjarnan skoraði fyrsta mark leiksins og var bróðurpart fyrri hálfleiks yfir í leiknum en á 20. mínútu komst Afturelding yfir með marki frá Birki Benediktssyni í stöðunni 6-7. Afturelding komst svo tveimur mörkum yfir og náðu þeir að halda því forskoti til loka fyrri hálfleiks. Staðan í hálfleik 10-12 fyrir gestina í Aftureldingu. 

Afturelding byrjaði seinni hálfleikinn vel og komst í fjögurra marka forskot í stöðunni 13-17 á 37. mínútu er Ihor Kopyshynskyi skoraði mark Aftureldingar. Stjarnan náði að skora tvö næstu mörk og náði að jafna 17-17 með marki frá Tandra Má. Leikurinn var jafn næstu mínútur þar sem Afturelding var ávallt með forskotið sem þeir náðu að halda til loka leiks og vinna þriggja marka sigur. 

Með sigrinum í kvöld er Afturelding komið upp í annað sæti deildarinnar með 16 stig eða jafn mörg og FH. Valur er sem fyrr efst á toppnum með 22 stig eftir tólf umferðir.