Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Svo sannarlega viðburður á heimsmælikvarða“

Mynd: Þjóðleikhúsið / Þjóðleikhúsið

„Svo sannarlega viðburður á heimsmælikvarða“

04.12.2022 - 13:00

Höfundar

„Það er svo sannarlega viðburður á heimsmælikvarða að Pussy Riot haldi sína fyrstu yfirlitssýningu hér á landi. En mér þótti ekki síður merkilegt að þau settu leiksýninguna sína, sem fjallar um síðustu tíu ár, upp á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu.“ Nína Hjálmarsdóttir, leikhúsgagnrýnandi Víðsjár, fór og sá Pussy Riot í Þjóðleikhúsinu.

Nína Hjálmarsdóttir skrifar:

Ég var í kringum tvítugt þegar Pussy Riot stormuðu inn í kirkju heilags Jesú Krists í Moskvu, í litríkum kjólum og með lambúshettur með göt fyrir augu munn og nef, þar sem þau frömdu hinn afdrifaríka gjörning, pönkbænina. Ég vissi að það væri tengt því að Pútín væri að reyna að breyta lögunum til að verða að eilífu forsætisráðherra, og að þau væru að berjast fyrir tjáningarfrelsi, en það tók mig kannski smá tíma að átta mig á marglaga þýðingu gjörningsins, að fremja svona verk í þessu rými. Ég elskaði þetta. Ég elskaði að þau kölluðu sig Píku óeirðirnar, að kvenleikinn innra með öllum væri uppspretta þessa gjörnings sem sýndi hvað pönk getur verið. Seinna komu afleiðingarnar í ljós, og magn þeirra fórnar sem þau færðu í nafni réttlætisins. Eitt er víst að þessi femíníski listgjörningur hafði gríðarlega mikil áhrif um allan heim og hrinti af stað vitundarvakningu um kúgun rússneskra stjórnvalda og rússnesku kirkjunnar.

Tíu ár hafa liðið og Pussy Riot eru að halda sína allra fyrstu yfirlitssýningu og það á Íslandi, í Reykjavík, í sjálfstæða galleríinu Kling og Bang. Sýningin var opnuð á fimmtudaginn og er mjög metnaðarfull. Starfsfólkið þar á hrós skilið en mér skilst að þau hafi unnið nótt og dag við uppsetninguna. Niðurstaðan er einkar fræðandi sýning sem gefur innsýn í ekki aðeins gjörninginn í Kristkirkjunni heldur víðtækan feril hópsins, og samhengi listar þeirra við samfélagsgerð Rússlands. Þar má sjá heimildir um gjörninga sem ég hafði ekki áður séð; eins og þegar þau settu hinsegin fánann á helstu valdastofnanir Moskvuborgar, en hinsegin fólki hefur verið neitað um tilvist sína í Rússlandi frá því löngu áður en stríðið í Úkraínu braust út. Á sýningunni býðst gestum einnig að taka þátt í innlimunarverki þar sem þau fá að finna vott að því hvernig er að vera í rússnesku fangelsi. Í örtröðinni á opnunardeginum mátti síðan sjá þau í Pussy Riot undirrita plaggöt og boli, en allur ágóði söluvarningsins og sýningarinnar í Þjóðleikhúsinu fer beint til stríðshrjáðra í Úkraínu.

Það er svo sannarlega viðburður á heimsmælikvarða að Pussy Riot haldi sína fyrstu yfirlitssýningu hér á landi. En mér þótti ekki síður merkilegt að þau settu leiksýninguna sína, sem fjallar um síðustu tíu ár, upp á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu. Einn frægasti mótmæla- og listgjörningahópur heims sem hefur stuðlað feikilega að vitundarvakningu um ógnarstjórn eins valdamesta ríki heims, stærsta lands í heimi, þessi hópur er að sýna á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsi Íslendinga. Það er rétt að veita þessu athygli, því þetta er pólítísk aðgerð af hálfu Þjóðleikhússins, af hálfu þjóðarinnar, þetta sýnir ákveðna afstöðu og jafnvel samstöðu, og á ekki að taka léttilega.

Sýningin byggist á bók Mariu Möshu Alyokhina, Óeirðadagar eða Riot Days, og hverfist í kringum pönkbænina í Kristskirkju, aðdragandanum og eftirköstunum. Þar segir Masha einnig frá dómsmálinu þar sem þau voru dæmd fyrir „óeirðir keyrðar áfram af trúarlegu hatri” og lífinu í fangelsinu, en hún blandar frásögninni saman við pólítískar hugleiðingar um hluti eins og frelsi, hamingju og lesbíska ást í fangelsi. Sýningin á föstudagskvöldinu sem er unnin upp úr bókinni var síðan eins og yfirlýsing sem er í senn tónleikar, leiksýning, heimildarmynd og gjörningur. Fjórar manneskjur eru á sviðinu, konur og kvárar. Þau spila á trommur og þverflautu í bland við hljóðheim elektró-sýrupönks, með hráum tölvugerðum hljóðum. Tónlistin er ærandi á góðan hátt, og erfitt er að sitja kjurr í sætinu. Yfir tónlistinni segir fólkið okkur söguna úr bókinni, á rússnesku, bæði með söng en aðallega með leikrænum mónó- og díalógum í anda slammljóðlistar. Á meðan er enskum texta varpað upp fyrir aftan þau með kvikmynd sem var tekin upp á þessum tíma, ásamt brotum úr fréttum og fjölmiðlum. Tónlistin er hávær og grípandi, upplýsingarnar eru yfirþyrmandi og áreitið er mikið. Að verkið sé stöðugt með allt í botni er örugglega viljandi, þar sem áhorfandinn fær aldrei pásu, sem er kannski snefill af þeirri upplifun að vera stöðugt undir eftirliti og ásóknum.

Það er ekki hægt að taka augun af flytjendunum sem eru sjóðandi af krafti allann tímann. Þau eru í mismunandi búningum sem spila á hugmyndir um kvenfatnað, eins og hvíti dúkkukjóllinn sem Masha klæðist, sem snýr þannig upp á einhverja fantasíu. Hún er líka í svörtum skóm með engum skóreimum, sem vísar í tímann þar sem hún mátti ekki hafa skóreimar í fangelsi. Fram eftir verkinu stendur Masha að mestu leyti kyrr en geislandi af orku, á meðan manneskjan við hliðina á henni í svörtum jakkafatajakka dansar einkennisdans Pussy Riot með svo mikilli orku að varla er hægt að slíta augun af háni. Þau sem ekki hafa séð upptökuna úr Kristskirkju geta reynt að ímynda sér dans þar sem er eins og útlimirnir séu að reyna að frelsa sig frá búknum. Þegar líður að lokum springa þau út í ófyrirséðum gjörningi sem gæti farið fyrir brjóstið á einhverjum frumsýningargestum. Í einu áhrifamiklu atriði má sjá myndir af nokkrum af þeim 442 pólítísku föngum sem eru fangelsaðir í Rússlandi vegna mótstöðu sinnar við stjórnvöld, eins og andspyrnuleiðtoginn Alexei Navalny. Hópurinn skilur áhorfendur eftir með kall til aðgerða og stór skilaboð á meðan þau halda uppi úkraínska fánanum, að það er ekki bara fólks frá alræðisríkjum að berjast fyrir réttlætinu, heldur höfum við hér í löndum eins og Íslandi mikla ábyrgð á herðum okkar. Hún er sú að við eigum að nota forréttindastöðu okkar til að grípa til aðgerða, afla okkur þekkingar og vekja til vitundar, deila auð okkar, varpa ljósi á óréttlæti, og vera rödd þeirra raddlausu.

Ég gekk út í ferskt nóvemberloftið eftir sýninguna í smá vantrú, að ég hafi í alvörunni verið að sjá þessi íkon, þennan heimsfræga listhóp og aðgerðahóp, á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu. Ég fattaði að það að sjá heimildarleikhús sem þetta um þennan stórkostlega gjörning sem pönkbænin í Kristskirkju var, og að heyra söguna frá þeim sem frömdu hann, er ekki aðeins leið til að miðla skilaboðum með listrænni upplifun, heldur líka þeirra leið til að vinna með eigin sögu, og kannski græða einhver sár með tónlist og dansi. Sýningin bergmálar gjörning fortíðarinnar en spyr líka hvenær listaverk eins og pönkbænin tekur enda, ef nokkurn tímann. Þannig byggir þessi sýning, þessi pönkbæn, ofan á fyrsta gjörninginn, setur hann í samhengi atburða dagsins í dag, syrgir harmleiki og fagnar sigrum. Það einhver von, trú á hið góða, þegar Pussy Riot ávarpar íslenska áhorfendur, en þau streitast líka á móti því að bjóða upp á hamingjusaman endi. Lokalínur pönkbænarinnar eru: „Þú ert frjáls núna, eða ertu frjáls?” En það er einmitt í þessu spurningarmerki sem margar mögulegar útkomur fá að lifa.

Nína Hjálmarsdóttir flutti pistil sinn í Víðsjá á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV. 

Tengdar fréttir

Myndlist

„Hættið að fjármagna hryðjuverkamenn“

Leiklist

Pussy Riot með sýningu í Þjóðleikhúsinu

Innlent

„Lagið er okkar öskur, viðbragð og stuðningur“