Réttarhöldunum var slegið á frest í september þegar dómari komst að þeirri niðurstöðu að glerbúr sem sakborningarnir tíu áttu að vera í, hver í sínu lagi, stæðust ekki lög. Glerbúrin voru fjarlægð og eiga mennirnir nú að sitja saman í einum stórum glerklefa.
Réttarhöldin verða þau dýrustu í sögu Belgíu. Áætlaður kostnaður nemur rúmlega 35 milljónum evra eða 5,3 milljörðum íslenskra króna. Þetta má að miklu leyti rekja til þess að hanna þurfti nýjan dómssal.
Reiknað er með að réttarhöldin standi í níu mánuði. Búið er að velja tólf manna kviðdóm, sjö konur og fimm karla. 24 kviðdómendur verða síðan til taks ef einhver forfallast.
Fyrsta vikan fer í að lesa upp ákæruliðina. Um miðjan janúar gefst fórnarlömbum árásarinnar síðan tækifæri til ávarpa dóminn og meðal þeirra verður hin sænska Jaana Mettala.
Mettala segir við Guardian að hún líti á réttarhöldin sem hluta af bataferlinu og það verði henni mikilvægt að deila lífsreynslu sinni með öðrum. Hún var gengin sex og hálfan mánuð á leið og sat í lest þegar sprengja sprakk við neðanjarðarlestarstöðina Maelbeek. „Það er langt um liðið og því nauðsynlegt að fólk fái að vita hverjar afleiðingarnar voru.“
Mettala var fjóra mánuði á sjúkrahúsi þar sem hún eignaðist heilbrigða stúlku. Hún hefur barist fyrir því að dóttir hennar verði skráð sem eitt af fórnarlömbum árásarinnar.
Meðal sakborninga í málinu er Salah Abdeslam, Frakki sem fæddist í Belgíu. Hann var höfuðpaurinn á bakvið árásirnar í París árið 2015 þar sem 130 létust og var í sumar dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir aðild sína að þeim.
Annar sakborningur er Mohammed Abrini sem kallaður hefur verið „maðurinn með hattinn“. Eftirlitsmyndavélar náðu honum á mynd ásamt tveimur ódæðismönnum á flugvellinum í Brussel. Hann hlaut einnig lífstíðardóm fyrir aðild að hryðjuverkunum í París.