Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óttast að diplómatísk lausn sé utan sjónmáls í Úkraínu

epa10344318 Ukrainian rescuers work on a building that was destroyed during night shelling in the village of Kluhyno-Bashkyrivka near Chuhuiv, Kharkiv region, Ukraine, 02 December 2022. Kharkiv and surrounding areas have been the target of heavy shelling since February 2022, when Russian troops entered Ukraine starting a conflict that has provoked destruction and a humanitarian crisis. At the beginning of September, the Ukrainian army pushed Russian forces from occupied territory northeast of the country in counterattacks  EPA-EFE/SERGIY KOZLOV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Diplómatísk lausn vegna innrásar Rússa í Úkraínu virðist ekki í sjónmáli að mati eins stofnanda margverðlaunaðra, rússneskra mannréttindasamtaka sem bannað er með lögum að starfa í heimalandinu.

„Ég er algerlega sannfærð um að diplómatísk lausn sé útilokuð á meðan Vladimír Pútín er við völd,“ sagði Irina Scherbakova þegar hún tók við Marion Doenhoff verðlaununum úr hendi Olaf Scholz Þýskalandskanslara, fyrir hönd mannréttindasamtakanna Memorial.

Hún kvað dapurlegt að þurfa að segja einu úrræðin nú vera á hernaðarsviðinu. Aðeins myndi örla á diplómatískum lausnum ef Úkraínumenn teldu sig hafa haft betur gegn Rússum.

Scherbakova, sem er í sjálfskipaðri útlegð í Þýskalandi, kvaðst jafnframt óttast að átökin hefðu umturnað veröldinni svo að hún yrði ekki söm eftir. Kanslarinn lofaði störf hennar við að skrásetja glæpi rússneskra stjórnvalda á tímum Stalíns og fyrir mannréttindabaráttu í samtímanum.

Scholz sagði samtökin mikilvægan bandamann í baráttunni fyrir friðsamlegri og frjálsri Evrópu. Memorial voru stofnuð 1989 en hæstiréttur Rússlands úrskurðaði undir lok seinasta árs að þau skyldu hætta starfsemi vegna brota á lögum um starfsemi útsendara erlendra afla í landinu.

Memorial deila friðarverðlaunum Nóbels í ár með hvítrússneska mannréttindafrömuðinum Ales Bjaljatskí og úkraínsku mannréttindasamtökunum Miðstöð borgaralegs frelsis. Verðlaunin verða afhent í Osló 10. desember.