Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eldgos hafið í Semeru-fjalli á eyjunni Jövu

04.12.2022 - 06:32
epa09620537 A handout photo made available by the Indonesian National Board for Disaster Management (BNPB) shows Mount Semeru spewing volcanic ash during an eruption in Lumajang, East Java, Indonesia, 04 December 2021.  EPA-EFE/Indonesian National Board for Disaster Management (BNPB) HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA - RÚV
Viðbúnaður var settur á hæsta stig við Semeru-eldfjallið á indónesísku eyjunni Jövu í nótt eftir að brennheitur öskustrókur gaus upp af því. Ákvörðunin var tekin í ljósi þess að eldgos í Semeru geta ógnað lífi fólks sem býr í næsta nágrenni við það.

Umsvifalaust var tekið til við að flytja íbúa nærliggjandi þorpa á brott og fólk er varað við að hætta sér nær fjallinu en sem nemur átta kílómetrum. Ekki hafa borist tíðindi af manntjóni.

Japanska veðurfræðistofnunin hefur þegar gefið út flóðbylgjuviðvörun vegna atburðanna. Rétt ár er síðan mannskætt gos hófst í þessu hæsta fjalli Indónesíu.

Þá fórst að minnsta kosti 51 en þykkt ösku- og leðjulag lagðist yfir nærliggjandi svæði og færði hús og farartæki á bólakaf.

Eldgos og jarðhræringar eru algeng í Indónesíu sem er á Kyrrahafseldhringnum svokallaða þar sem hátt hlutfall jarðskjálfta og eldgosa heimsins verður. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV