Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Dapur yfir rýtingsstungum frá fólki sem hann taldi vini

04.12.2022 - 18:18
29. nóv 2022
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segist vita til þess að reynt hafi verið að eyðileggja samningaviðræður SGS og Samtaka atvinnulífsins með því að leka upplýsingum um viðræðurnar til fjölmiðla. Þá hafi verið haft samband við tvo formenn innan Starfsgreinasambandsins og þeir beðnir um að skrifa ekki undir nýjan samning. Hann segist sorgmæddur að sjá fólk sem hann taldi vera góða vini sína stinga hann í bakið með því að segja hann nánast hafa framið glæp með þessum samningi.

Þetta kemur fram í mjög ítarlegri færslu sem Vilhjálmur birti nú síðdegis.

Vilhjálmur nefnir engin nöfn í pistlinum en bæði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hafa sagt í dag að þeim hugnist ekki samningurinn sem skrifað var undir í gær. „Ég varð fyrir vonbrigðum,“ sagði Ragnar í samtali við fréttastofu. 

Í sama streng tók Sólveig Anna. „Við að sjálfsögðu sættum okkur ekki við það að taka þátt í einhverjum blekkingarleik þar sem það sem þegar var um samið þar er einhvern veginn tekið og selt fólki aftur eins og gert er núna með hagvaxtaraukanum.“

Ragnar, Vilhjálmur og Sólveig Anna hafa verið samstíga í baráttunni fyrir bættum kjörum en miðað við pistil Vilhjálms eru komnir brestir í þessa þrenningu.

Vilhjálmur segist hafa haldið Sólveigu Önnu upplýstri um hvað væri í gangi og það hafi verið Efling sem hafi ákveðið að skila ekki samningsumboðinu til Starfsgreinasambandsins. „[É]g tel að það hefði verið mun skynsamlegra að þau hefðu verið með okkur til að hafa áhrif og koma sínum sjónarmiðum á framfæri.“

Í framhaldinu heldur Vilhjálmur því fram að upplýsingum um viðræðurnar hafi vísvitandi verið lekið til fjölmiðla og markmiðið með þeim leka geti ekki hafa verið annað en að skemma og afvegaleiða það sem verið var að semja um. „Ég veit líka að haft var samband við allavega tvo formenn innan SGS og þeir beðnir um að skrifa ekki undir nýjan samning. Hvað var tilgangurinn annar en bara að eyðileggja það sem við vorum að gera.“

Vilhjálmur segist fúslega viðurkenna að hann sé sorgmæddur að sjá fólk sem hann taldi vera góða vini sína stinga hann í bakið „með því að segja að ég hafi nánast framið glæp með þessum samningi.“ Haldi fólk að það sé auðvelt að semja við Halldór Benjamín Þorbergsson og hans fólk hjá SA vaði fólk í villu og svíma. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV