Samningurinn er framlenging á lífskjarasamningnum og gildir til 31. janúar 2024. Lögð er áhersla á krónutöluhækkun sem kemur strax til framkvæmda og lagfæring á launatöflunni gerir það að verkum að hækkun getur orðið allt að 52 þúsund krónur á mánuði.
Vilhjálmur segir að þau í Starfsgreinasambandinu hafi tekið hlutverk sitt í þessum kjaraviðræðum mjög alvarlega. „Okkar félagsmenn hafa þurft að horfa á miklar kostnaðarhækkanir á síðustu misserum. Það er fullt af fólki sem nær ekki endum saman frá mánuði til mánaðar. Það er að ganga í garð jólahátíð og því fannst okkur mjög brýnt að gera kjarasamning sem myndi skila launafólki launahækkun eins fljótt og verða má.“
Í tilkynningu frá Starfsgreinasambandinu sagði að samningsaðilar séu sammála um að samningurinn styðji við kaupmátt launa og veiti heimilum og fyrirtækjum fyrirsjáanleika á miklum óvissutímum. Hann eigi þannig að geta byggt undir stöðugleika og skapað forsendur fyrir langtímasamningi.
En þrátt fyrir að vel hafi verið fagnað með hefðbundnum hætti, nýbökuðum vöfflum, sultu og rjóma, varar Vilhjálmur við því að ef ekkert breytist verði átök næst þegar samningar verða lausir. „Það er algjörlega morgunljóst að ef atvinnurekendur halda áfram að varpa verðlaginu út, bankarnir að okra á okkar félagsmönnum og vextirnir fara ekki niður þá eru yfirgnæfandi líkur á hörðum átökum ef verðbólgan fer ekki niður og vextirnir líka.“