Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rússar hafna boði Bidens um fund með Pútín

02.12.2022 - 12:05
epa10342559 US President Joe Biden speaks at a press conference with French President Emmanuel Macron (not pictured) in the East Room of the White House in Washington, DC, USA 01 December 2022. Macron' visit marks the first official state visit of the Biden administration.  EPA-EFE/CHRIS KLEPONIS / POOL
 Mynd: EPA-EFE - CONSOLIDATED NEWS PHOTOS POOL
Joe Biden Bandaríkjaforseti sagðist í gærkvöld reiðubúinn að hitta Vladimír Pútín forseta Rússlands ef Pútín væri tilbúinn að ljúka stríðinu í Úkraínu. Biden myndi þó aðeins gera það í samráði við NATO. Rússar hafa hafnað slíkum fundi. 

Biden ræddi við fréttamenn í Washington í gærkvöld, ásamt Emmanuel Macron forseta Frakklands, sem er í opinberri heimsókn í Bandaríkjunum. Þar sagði Biden að það væri aðeins ein rökrétt leið til að ljúka þessu stríði - að Pútín drægi rússneskt herlið frá Úkraínu. 

„Ég er tilbúinn að hitta Pútín ef hann sýnir einhvern áhuga á að ljúka þessu stríði. Hann hefur ekki gert það,“ sagði Biden. Hann tók fram að hann myndi aldrei mæta á slíkan fund einn síns liðs, heldur myndi hann gera það með liðsinni bandamanna sinna í NATO. Hann tók líka fram að hann hefði sjálfur ekki í hyggju að setja sig í samband við Pútín.

Dmitri Peskov talsmaður rússneskra stjórnvalda sagði á símafundi með fréttamönnum í morgun að Rússar væru alltaf opnir fyrir samningaviðræðum til að tryggja sína hagsmuni. Bandaríkjamenn hafi hins vegar enn ekki viðurkennt ný svæði innan Rússlands - þar átti hann við fjögur héruð í Úkraínu sem Rússar segjast hafa innlimað með atkvæðagreiðslu sem Vesturlönd viðurkenna ekki.

Peskov benti á þau skilyrði Bidens að Pútín yfirgæfi Úkraínu. Rússnesk stjórnvöld væru ekki tilbúin að samþykkja slíkt. Sérstaka hernaðaraðgerðin - orðalagið sem Rússar nota yfir innrásina í Úkraínu - héldi áfram.

Aðstoðarmaður Volodymyrs Zelensky forseta Úkraínu segir að 10-13 þúsund úkraínskir hermenn hafi fallið í stríðinu sem hófst í febrúar. Herinn sjálfur hefur ekki staðfest þessar tölur.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV