Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Hugleysi í tillögunum og engin sterk framtíðarsýn“

02.12.2022 - 19:56
Mynd: Bragi Valgeirsson / fréttir
Hugrekki vantar í hagræðingartillögur meirihlutans í borginni og skýra framtíðarsýn, að mati oddvita Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins segir að niðurskurðurinn bitni mest á þeim sem síst skyldi. 

Kroppað í þjónustu hér og þar

92 tillögur til að hagræða í rekstri borgarinnar voru samþykktar í borgarráði í gær.  

Skorið verður niður víða - meðal annars er lagt til að fækka sýningum í Listasafni Reykjavíkur, stækka svæði og hækka bílastæðagjald og sytta opnunartíma félagsmiðstöðva. 

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins segir tillögurnar bitna á nærþjónustu og þeim sem síst skyldi. Það skapi vandamál en ekki lausnir. 

„Það er ekki talað um hvernig á að vinna gegn ójöfnuði og byggja fyrir þau sem eru í neyð. Það sem við þurfum að skoða er að tryggja hér grunnþjónustu. Það er okkar hlutverk og þegar ég skoða þetta út frá stöðu barna þá get ég ekki séð að það sé verið að verja aðstæður þeirra eða bæta þær,“ segir Sanna. 

„Það er verið að kroppa í þjónustu hér og þar sem bitnar á hinum almenna íbúa og bitnar allra mest á þeim sem að geta síst greitt fyrir þetta.“

Sanna Magdalena Mörtudóttir
 Mynd: Bragi Valgeirsson - Fréttir
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins.

Magn umfram gæði og einungis dropi í hafið

Fimmtán milljarða halli er á rekstri borgarinnar í ár en tillögurnar spara rúman milljarð komi þær til framkvæmda. Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir að þetta sé einungis dropi í hafið. Ekki sé gengið nógu langt og einblínt á magn umfram gæði.  

„Ég sakna þess að hafa ekki séð stærri og umfangsmeiri tillögur, ríflegan niðurskurð í stórum fjárfestingarverkefnum sem mega bíða eða snúa ekki að lögbundinni þjónustu. Ég hefði miklu frekar viljað sjá þennan meirihluta ráðast á yfirbygginguna og ráðast á sí hækkandi rekstrarkostnað borgarinnar og þennan mikla starfsmannafjölda.“

Frekar hefði átt að minnka yfirbygginguna, selja eignir og fækka starfsfólki borgarinnar sem hefur fjölgað um 25% á síðustu árum. Hildur segir tillögurnar ekki ganga nógu langt. 

„Mér finnst svoliðtið hugleysi í þessum tillögum og engin sterk framtíðarsýn.“

- Þarf bara að ganga lengra til að rétta þennan halla af?  „Það þarf að ganga miklu lengra og ég hefði viljað sjá djarfari og stærri skref stigin.“