Hárið hefur sína eigin rödd

Mynd: Landinn / RÚV

Hárið hefur sína eigin rödd

02.12.2022 - 09:29

Höfundar

„Þetta er svo áhugavert og merkilegt efni sem hefur svo margar vísanir,“ segir myndlistarkonan Nína Magnúsdóttir sem notar sitt eigið hár sem efnivið í verkum sínum.

Nína opnaði á dögunum sýninguna Hársbreydd í menningarmiðstöðinni Skaftfelli á Seyðisfirði. „Öll verkin eru formuð eða teiknuð með hári,“ segir Nína. „Hárið hefur sína eigin rödd og ég hef mína. Við eigum í mjög miklu samtali meðan ég er að vinna þessi verk.“

Segja má að verkin eigi uppruna sinn í aurskriðunum sem féllu á Seyðisfirði í desember 2020. Sonur Nínu og eiginmaður sluppu með skrekkinn og hlupu út úr húsi fjölskyldunnar þegar stóra skriðan féll. Fjölskyldan þurfi tímabundið að finna sér nýjan samastað og nýja vinnustofu.

„Við máttum ekki búa í húsinu í alveg hálft ár og það varð einhver knýjandi þörf hjá mér að vera í núinu og hella mér í einhverja vinnu. Þannig urðu þessi verk til,“ segir Nína.

Landinn fór í Skaftfell og hitti Nínu þegar hún var að ljúka við að setja upp sýninguna.