Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Flogið með þrjá suður eftir alvarlegt umferðarslys

02.12.2022 - 20:18
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Þrír voru fluttir suður til Reykjavíkur með sjúkraflugi eftir harðan árekstur tveggja bíla á Hnífsdalsvegi á Vestfjörðum á áttunda tímanum í kvöld. Lögreglan á Vestfjörðum, björgunarsveitir og sjúkrahúsið á Ísafirði voru með talsverðan viðbúnað og samhæfingarstöðin í Skógarhlíð var virkjuð.

Gylfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, segir tvo hafa verið lagða inn á sjúkrahúsið á Ísafirði. Hann kveður talsverðan viðbúnað hafa verið vegna slyssins og hópslysaáætlun verið virkjuð.  Slökkviliðið þurfti að fara með klippur á slysstað til að ná fólki út. 

Hlynur Snorrason yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum segir þrjá alvarlega slasaða, tvo minna og að allir séu heimamenn. Of snemmt sé að kveða upp úr um tildrög slyssins en mikil hálka myndaðist á veginum undir kvöld.

„Það er ótímabært að segja til um tildrögin. Það er til rannsóknar,“ segir Hlynur. Hann segir að aðeins þurfi að bíða með að ákvarða hvort hálka hafi átt þátt í því að slysið varð.

Hver verða næstu skref svona í kvöld og í fyrramálið?

„Viðbragðsaðilar eru að ganga frá og þegar allt er um garð gengið svo er áætlað að vera með fund á morgun fyrir alla viðbragðsaðila.“ Hlynur segir aðgerðum á slysstað hafa lokið um klukkan hálf ellefu í kvöld. 

Rýnifundur verður fyrir alla sem að aðgerðum komu í Hnífsdal klukkan þrjú á morgun. 

Fréttin var uppfærð klukkan 00:19, 3.12.2022.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Fréttagrafík - RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV