Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

300 þúsund með skemmtiferðaskipum til Ísafjarðar

02.12.2022 - 10:12
Mynd: RÚV / Jóhannes Jónsson
Áætlað er að nærri 300 þúsund ferðamenn komi með skemmtiferðaskipum til Ísafjarðar næsta sumar. Bæjarstjórinn segir afar krefjandi að taka á móti þessum fjölda og margir bæjarbúar haldi sig frá miðbænum þegar flest er.

245 þúsund farþegar auk áhafna

Hafnargjöld af komu skemmtiferðaskipa eru orðin helsta tekjulind Ísafjarðarhafnar, en þeim fylgir mikið álag. 218 skip hafa boðað komu sína á næsta ári og er áætlað að með þeim komi 245 þúsund farþegar og áhafnir þar að auki.

„Alger metfjöldi sem mun reyna hér á innviði“

Á 35 daga tímabili er áætlað að komi að jafnaði 3.000 manns á dag til Ísafjarðar og einn daginn í sumar er búist við 8.200 farþegum í land. „Reynslan segir okkur að það verða alltaf einhverjar afbókanir,“ segir Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. „Engu að síður er þetta alger metfjöldi og mun auðvitað reyna hér á innviði. Það er alveg augljóst.“

Dreifa skipum á fleiri hafnir til að minnka álagið

Auk Ísafjarðar, teljast hafnirnar á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri til Ísafjarðarhafnar. Arna segir því hægt að dreifa skipum til að minnka álagið. „Þeir farþegar sem koma hingað fara alla leið í Arnarfjörð, að Dynjanda, og þeir fara hér inn í Djúp. Þannig að við erum að ná að dreifa þeim dálítið vel.“

Íbúarnir forðist í miðbæinn á stærstu ferjudögum

Í þessu felist einnig tækifæri fyrir ferðaþjónustuna og önnur fyrirtæki til að skapa meiri afþreyingu fyrir allt þetta fólk. En það verði að gæta að því ganga ekki fram af fólki. „Og við auðvitað aðlögumst vel og það eru margir íbúar hér á Ísafirði sem fylgjast með listanum hjá Ísafjarðarhöfn og athuga hvenær skipin eru í höfn. Og ákveða að vera ekki að fara mikið niður í bæ þegar það eru fjögur, fimm skip í einu.“

Atvinnulífið í sjávarþorpinu þarf líka sitt pláss

„Og við erum auðvitað líka sjávarþorp með okkar atvinnulíf og sjávarútveg sem þarf líka sitt pláss. Þannig að þetta þarf að ganga allt saman. En það eru margir dagar hér á Ísafirði þar sem er orðið fullbókað,“ segir Arna Lára.