Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhendir verðlaun fyrir Íslensku bókmenntaverðlaunin og Íslensku glæpasagnaverðlaunin, Blóðdropans, um mánaðamótin janúar-febrúar á komandi ári á Bessastöðum. Verðlaunaupphæðin er ein milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk. Félag íslenskra bókaútgefanda kostar verðlaunin.
Tilnefndar eru bækur í fjórum flokkum; til Íslensku glæpasagnaverðlaunanna, í flokki barna- og ungmennabóka, í flokki fræðibóka og rita almenns efnis og í flokki skáldverka. Formenn dómnefndanna fjögurra eru Guðrún Steinþórsdóttir, Kamilla Guðmundsdóttir, Sigríður Kristjánsdóttir og Skúli Pálsson og þau koma saman ásamt forsetaskipuðum formanni, Gísla Sigurðssyni, og velja einn verðlaunahafa úr hverjum flokki.
Tilnefningar til Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans 2022 eru:
- Strákar sem meiða eftir Evu Björg Ægisdóttur
- Drepsvart hraun eftir Lilju Sigurðardóttur
- Reykjavík eftir Ragnar Jónasson og Katrínu Jakobsdóttur
- Stóri bróðir eftir Skúla Sigurðsson
- Hungur eftir Stefán Mána
Tilnefningar í flokki barna- og ungmennabóka:
- Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur
- Allt er svart í myrkrinu eftir Elísabetu Thoroddsen
- Frankensleikir eftir Eirík Örn Norðdahl og Elías Rúna
- Héragerði eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur
- Ófreskjan í mýrinni eftir Sigrúnu Eldjárn
Tilnefningar í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:
- Ísland Babýlon: Dýrafjarðarmálið og sjálfstæðisbaráttan í nýju ljósi eftir Árna Snævarr
- Farsótt: Hundrað ár í Þingholtsstræti 25 eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur
- Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta eftir Ragnar Stefánsson
- Baráttan um bjargirnar: Stjórnmál og stéttabarátta í mótun íslensk samfélags eftir Stefán Ólafsson
- Nesstofa við Seltjörn: Saga hússins, endurreisn og byggingarlist eftir Þorstein Gunnarsson
Tilnefningar í flokki skáldverka:
- Eden eftir Auði Övu Ólafsdóttur
- Ljósagangur eftir Dag Hjartarson
- Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur
- Lungu eftir Pedro Gunnlaug Garcia
- Hamingja þessa heims: Riddarasaga eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur
Íslensku bókmenntaverðlaunin voru fyrst veitt 1989 og er ætlað að draga fram athyglisverðustu útgáfubækur hvers ár. Félag íslenskra bókaútgefenda gerði fyrr á þessu ári samkomulag við Íslenska glæpafélagið um að taka yfir verklega framkvæmd Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans og eru verðlaunin því veitt samtímis í fyrsta sinn í ár.