Þjóðverjum dugði ekkert annað en sigur til að komast í 16 liða úrslit og þeir þurftu á sama tíma að treysta á að Spánverjar töpuðu ekki fyrir Japönum. Serge Gnabry létti pressunni snemma af Þjóðverjum með því að koma þeim yfir gegn Kosta Ríka á 10. mínútu með skallamarki.
Mínútu síðar í hinum leiknum komust Spánverjar yfir gegn Japönum og í þeirri stöðu voru Þjóðverjar komnir í annað sæti riðilsins með 4 stig, stigi upp fyrir Japan og Kosta Ríka en Spánverjar efstir með 7 stig.
Þjóðverja skorti ekki marktækifærin í fyrri hálfleik en inn vildi boltinn ekki. Kosta Ríka dugði jöfnunarmark til að komast í 16 liða úrslit og Yeltsin Tejeda jafnaði fyrir Kosta Ríka á 58. mínútu. Manuel Neuer hélt ekki boltanum eftir skot frá Kendall Waston og Tejeda fylgdi á eftir, 1-1.
Þegar Juan Pablo Vargas kom Kosta Ríka yfir 2-1 á 71. mínútu var staðan skyndilega orðin þannig að Japan og Kosta Ríka voru á leið í 16 liða úrslitn á kostnað Þjóðverjar og Spánverja. Þjóðverjar ætluðu sér ekki að falla úr leik í riðlakeppninni á öðru heimsmeistaramótinu í röð og Kai Havertz jafnaði metin í 2-2 fyrir Þýskaland tveimur mínútum síðar. Í þessari stöðu voru Spánverjar komnir upp fyrir Kosta Ríka í annað sætið á markatölu.
Havertz náði svo forystunni 3-2 fyrir Þjóðverja á 85. mínútu með sínu öðru marki en þar sem Japanir voru yfir á sama tíma gegn Spánverjum voru Þjóðverjar í þriðja sæti með jafnmörg stig og Spánverjar sem voru í öðru sæti en með miklu betri markatölu. Þjóðverjar þurftu því að treysta á að Spánverjar jöfnuðu gegn Japönum. Engu breytti þó Niclas Fullkrug næði 4-2 forystu fyrir Þjóðverja. 2-1 sigur Japan á Spáni þýðir að Japan vinnur riðilinn með 6 stig, Spánverjar eru í 2. sæti með 4 stig, jafmörg stig og Þýskaland sem fellur úr leik á markatölu.
Það er verið að slá heimsmet í dramatík á HM. Sjáum markasúpuna í tímaröð í E-riðli þegar Japan og Spánn komust í 16 liða úrslit á kostnað Þýskalands og Kosta Ríka. pic.twitter.com/qKDzjGFgBZ
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) December 1, 2022