Marokkó er komið í 16 liða úrslit á HM í fótbolta í fyrsta sinn í 36 ár. 2-1 sigur á Kanada tryggði Marokkó toppsæti F-riðils á undan Króötum sem urðu í 2. sæti. pic.twitter.com/D7GxkpFqVO
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) December 1, 2022
Hakim Ziyech kom Marokkó yfir strax á 4. mínútu eftir skógarhlaup Milan Borjan markvarðar Kanadamanna. Youssef En-Nesyri jók forystu Marokkó í 2-0 korteri síðar. Kanadamenn minnkuðu muninn í 2-1 fimm mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks. Fyrirgjöf Sam Adekugbe fór í Nayef Aguerd og af honum í eigið mark. Það reyndist vera hundraðasta mark mótsins í Katar.
Kanadamenn höfðu ekki að neinu að keppa en reyndu hvað þeir gátu að jafna metin en mörkin urðu ekki fleiri. Kanadamenn halda því heim og geta byrjað að hlakka til næsta heimsmeistaramóts þar sem þeir verða gestgjafar ásamt Bandaríkjunum og Mexíkó.
Marokkó komst síðast í útsláttarkeppni HM árið 1986.