Spánverjum dugði jafntefli til að komast í 16 liða úrslit en Alvaro Morata kom yfir á 11. mínútu. Spánverjar voru 83% með boltann í fyrri hálfeik en þeir náðu aðeins þremur skotum á mark og staðan í hálfleik var 1-0.
En Japanir komu af fítonskrafti til síðari hálfleiks og Ritsu Doan jafnaði fyrir þá á 49. mínútu. 142 sekúndum síðar skoraði Ao Tanaka fyrir Japan af stuttu færi mark sem upphaflega var dæmt af þar sem talið var að boltinn hefði farið aftur fyrir endalínu áður en Kaoru Mitoma gaf boltann fyrir markið. En VAR skoðun leiddi í ljós að einhver lítill hluti boltans hafi enn verið á endalínunni svo markið fékk að standa og Japanir voru allt í einu komnir yfir 2-1.
Í hinum leiknum komst Kosta Ríka yfir gegn Þýskalandi 2-1 sem þýddi að Spánverjar kæmust ekki áfram. En jöfnunarmark Þjóðverja setti Spánverja upp fyrir Kosta Ríka í annað sæti riðilsins. Staða Spánverja breyttist ekki þegar Þjóðverjar komust yfir í 3-2 og 4-2. Þjóðverjar hafna í 3. sæti riðilsins með fjögur stig, jafnmörg og Spánn sem er með betri markatölu.
Þar með er ljóst að Spánverjar mæta Marokkó í 16 liða úrslitunum á þriðjudaginn og Japanir mæta Króatíu á þriðjudag.
Það er verið að slá heimsmet í dramatík á HM. Sjáum markasúpuna í tímaröð í E-riðli þegar Japan og Spánn komust í 16 liða úrslit á kostnað Þýskalands og Kosta Ríka. pic.twitter.com/qKDzjGFgBZ
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) December 1, 2022