Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Íslenskar bækur og spil eru jólagjöf ársins

01.12.2022 - 08:35
Books HD
 Mynd: Abhi Sharma - Flickr
Jólagjafir ársins eru íslenskar bækur og spil. Þetta tilkynnti Sigrún Ösp Sigurjónsdóttir forstöðumaður Rannsóknarseturs verslunarinnar í morgunútvarpnu á Rás 2. Heilmikið ferli býr að baki vali Rannsóknarsetursins á jólagjöf ársins. Neytendur eru spurðir, rannsóknarsetrið leitar til verslana og rýnihópur sest yfir niðurstöðurnar og velur gjöf ársins. 

Sigrún segir að í rýnihópnum hafi fljótt mátt greina samhljóm í hugmyndum  um jólagjöf ársins. Áhersla á samveru og skemmtun hafi verið mikil. Tíðarandinn kalli á aukinn léttleika. „Umræðurnar leiddu svolítið mikið í þá átt að þetta yrðu jólin sem við myndum koma svolítið saman. Þjóðin fer nú úr jogginggallanum sem var jólagjöf ársins í fyrra, klæðir sig í glamúrgallann. Við hittumst og tölum saman og skemmtum okkur saman. Og hvað er skemmtilegra en að hittast í góðu jólaboði og spila og ræða jólabækurnar?" sagði Sigrún. 

Í könnun Rannsóknarsetursins völdu flestir neytendur bækur og spil á óskalistann sinn fyrir þessi jól, en 55% svarenda völdu bækur og/eða spil þegar þeir voru spurðir „Hvaða vörur og/eða þjónustu værir þú til í að fá í jólagjöf þessi jól?“ Auk þess sem 13% aðspurðra sögðust helst vilja fá bækur eða spil í jólagjöf.

Þá gefur vísitala Rannsóknarsetursins um smásöluveltu vísbendingar um að vinsældir bókarinnar hafi aukist frá árinu 2018.

hafdishh's picture
Hafdís Helga Helgadóttir