Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Dusta nýfallið ryk af næturstrætó í Reykjavík

01.12.2022 - 20:43
Mynd með færslu
 Mynd: Alexander Kristjánsson - RÚV
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, lagði til á fundi borgarráðs í morgun að fjárheimild til Strætó bs. verði hækkuð um 51 milljón á næsta ári . Upphæðinni er ætlað að standa straum af akstri næturstrætó í Reykjavík.

Næturstrætó var eitt af baráttumálum Framsóknarflokksins í borgarstjórnarkosningunum í vor. 

Strætó gerði tilraun með fyrirkomulagið í sumar. Um miðjan október var ákveðið að slá tilraunina af þar sem farþegafjöldi stóðst ekki væntingar. 300 til 340 nýttu sér næturstrætó um hverja helgi eða 14 til 16 í hverri ferð. Og það þótti talsvert undir ásættanlegum viðmiðum.

Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, sagði við fréttastofu í október að það hefði aldrei verið markmiðið að næturvagnarnir stæðu alveg undir sér. Slæm fjárhagsstaða Strætó hefði líka haft áhrif á þessa ákvörðun.

Pawel Bartoszek, fyrrverandi borgarfulltrúi Viðreisnar, var einn þeirra sem gagnrýndi ákvörðunina að hætta með næturstrætó. „[E]f hagsmunir höfuðborgarsvæðisins myndu hljóta sömu athygli gæti Alþingi alveg eins ákveðið að niðurgreiðsla á almenningssamgöngum, þar með talið á nóttunni, skipti líka máli,“ skrifaði Pawel á Facebook. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV