Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bréfasprengja sprakk í sendiráði Úkraínu í Madríd

epa10338799 National Police agents are seen at the entrance to the Ukrainian Embassy in Madrid, Spain, 30 November 2022. An employee of the Ukrainian Embassy was taken to hospital after he resulted slightly injured after a letter bomb sent to him exploded. According to the police the envelope contained a handmade explosive.  EPA-EFE/Chema Moya ATTENTION EDITORS: FACES PIXELATED AT SOURCE.
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Öryggisvörður í sendiráði Úkraínu í Madríd á Spáni særðist lítillega í gær þegar hann opnaði umslag sem innihélt bréfasprengju. Það varð til þess að stjórnvöld í Kyiv ákváðu að auka öryggisgæslu í sendiráðum Úkraínu.

Sendiherrann, Serhii Pohoreltsev, sakar Rússa um sendinguna sem barst með hefðbundnum bréfapósti. Spænska lögreglan segir að tilkynning um sprengjuna hafi borist laust eftir hádegi að staðartíma.

Öryggisvörðurinn sem opnaði bréfið fór sjálfur á sjúkrahús en var strax útskrifaður og hefur snúið aftur til vinnu. Lögregla hefur málið til rannsóknar en lætur ekkert frekar uppi. 

„Við þekkjum vel þau hryðjuverkameðul sem árásarríkið beitir,“ sagði sendiherrann í samtali við spænska ríkisstjónvarpið og bætti við að Úkraínumenn yrðu að vera viðbúnir hvers kyns árásum af hálfu Rússa. 

AFP-fréttaveitan hefur eftir ónafngreindum nágranna að sprengingin hafi glumið í hverfinu. Hann taldi fyrst að hleypt hefði verið af byssu. Sendiráðið var lokað af um tíma en það hefur aðsetur í skógivöxnu íbúðahverfi í norðurhluta Madrídar.

Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, fyrirskipaði strax að öryggisgæsla skyld hert í öllum sendiráðum ríkisins. Jose Manuel Albares, utanríkisráðherra Spánar, heitir Úkraínumönnum fullum stuðningi og aðstoð.