Meirihlutinn segir í bókun sinni að þessi viðbrögð séu eðlileg og í samræmi við tilefni þar sem standa eigi vörð um framlínuþjónustu og viðkvæma hópa.
Meðal þess sem lagt er til er að spara hundrað milljónir með því breyta innkaupum á matvælum í leikskólum.
Segja á upp samningi um skólabúðir á Úlfljótsvatni og stytta opnunartíma í félagsmiðstöðvum unglinga um korter. Þeim verður lokað korter í tíu á kvöldin en ekki klukkan tíu.
Endurskoða á gjaldskrá bílastæða í höfuðborginni. Það þýðir með öðrum orðum að hækka á verðið í bílastæði borgarinnar. Borgaryfirvöld ætla sömuleiðis að ná í fimmtíu miljónir með því að stækka gjaldsvæði Bílastæðasjóðs.
Borgin hyggst spara rúmar átta milljónir með því að fækka sýningum hjá Listasafni Reykjavíkur úr 19 í 17 og ekki fá jafn margir boðsmiða á opnanir. Stytta á opnunartíma í fimm söfnum þannig að þau verða opin til klukkan sex. Tvö söfn fá að hafa opið til hálf sjö.
70 milljónir á að spara með því lækka aldursviðmið og minnka greiðsluþátttöku í hljóðfæranámi fullorðinna. Þá ætlar borgin að draga úr og hætta nánast alfarið að senda frá sér bréfpóst og spara á nærri sextíu milljónir með því að breyta opnunartíma sundlauga á rauðum dögum.
20 milljónir á að spara með því að draga úr viðhaldi gatnalýsingar vegna LED-lýsingar. Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, gagnrýndi þetta og sagði í bókun að borgin mætti varla við þessu. Hún væri þegar dimm sem hefði áhrif á öryggi íbúa.
Starfsmenn borgarinnar fá ekki lengur frí bílastæði og stefnt er að því að skera niður kostnað við fundi borgarstjórnar um eina og hálfa milljón.