Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Verðhækkanir lækna mögulega langt umfram verðlag

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Boðaðar hækkanir á þjónustu sérgreinalækna virðist vera talsvert umfram verðlag, segir María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands. Samningur milli sérgreinalækna og ríkisins um greiðsluþátttöku hefur ekki verið í gildi í fjögur ár.

Læknastöðin í Orkuhúsinu boðaði nýverið miklar verðhækkanir um mánaðamótin um allt að 175 þúsund krónur.

„Okkur sýnist nú að þessi hækkun sem er verið að boða, okkur sýnist hún nú vera talsvert umfram verðlag,“ segir María.

María segist raunar skilja illa þær verðhækkanir sem boðaðar hafi verið um mánaðamótin. Gjaldskrá Sjúkratrygginga gildi til 1. febrúar hið minnsta.

„Það er engin breyting af okkar hálfu um mánaðamótin, okkar gjaldskrá gildir alveg til 1. febrúar. Ég hreinlega veit ekki til hvers er verið að vísa þar.“

Þjónustuþak stendur í viðsemjendum

En af hverju hefur ekki verið samið við sérgreinalækna? Helsta breytingin frá fyrri samningi, segir María, er að nú þarf að skilgreina betur hvaða þjónustu á að greiða fyrir og hvaða þjónustu verður ekki greitt fyrir. Það verður sem sagt að setja ákveðið þak á þjónustuna, það fara heilbrigðisyfirvöld fram á.

„Ég myndi segja að þessi krafa heilbrigðisyfirvalda um ákveðið þak að það sé kannski það sem helst hefur staðið í okkar viðsemjendum.“

María segir samningsleysið ekki boðlegt.

„Þetta er auðvitað mjög óheppilegt gagnvart sjúklingum og eiginlega alveg ótækt.“