Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tyrkir enn á báðum áttum með NATO-aðild Finna og Svía

30.11.2022 - 14:45
epa10338395 General view of the NATO Foreign Ministers Meeting held at Parliament Palace in Bucharest, Romania, 30 November 2022. Foreign Ministers from NATO countries gather in Romania's capital on 29 and 30 November 2022 to tackle Russia’s invasion in Ukraine, NATO's support for Kyiv administration and regional partners and to find new ways to strengthen the Eastern flank of the alliance.  EPA-EFE/ROBERT GHEMENT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Betur má ef duga skal segir utanríkisráðherra Tyrklands um umsókn Svíþjóðar í Atlantshafsbandalagið. Mevlut Cavusoglu settist niður með starfssystkinum sínum frá Svíþjóð og Finnlandi samhliða fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsríkjanna í Búkarest í gær.

Tyrknesk stjórnvöld hafa sakað bæði ríkin, þá sérstaklega Svía, um að halda hlífiskildi yfir hópum Kúrda sem Tyrkir líta á sem hryðjuverkamenn. Þeir hafa ekki viljað samþykkja inngöngu ríkjanna inn í NATO fyrr en þeir fá sínu framgengt hvað það varðar.

Cavusoglu segir yfirlýsingar nýju ríkisstjórnarinnar veita smá von, en Tyrkir verði að sjá aðgerðir áður en þeir taka ákvörðun. Tobias Billstrom, utanríkisráðherra Svíþjóðar, var jákvæður eftir fundinn í gær og sagði allt stefna í rétta átt.

Finnar og Svíar hafa lengi verið hlutlausir en ákváðu að sækja um aðild að NATO í maí, nokkrum mánuðum eftir innrás Rússa í Úkraínu. Öll aðildarríki NATO verða að samþykkja inngöngu nýrra ríkja. Tyrkland og Ungverjaland hafa enn ekki veitt samþykki sitt fyrir því.