Framlag ríkis heldur ekki í við kostnaðarhækkanir
Ríkið greiðir jafnan stærstan hluta reikningsins þegar sjúklingar sækja einkastofur, samkvæmt samningi sem Sjúkratryggingar Íslands hafa gert við sérgreinalækna. En fjögur ár eru liðin síðan síðasti samningur rann út og ekkert hefur gengið að ná saman um nýjan. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra bindur vonir við að það fari að sjá í land. „Þetta er algjört forgangsmál hjá okkur fyrir fólkið í landinu.“
Í samningum Sjúkratrygginga og sérgreinalækna er ekki aðeins samið um greiðsluþátttöku ríkisins heldur einnig hvað má rukka fyrir tiltekna þjónustu. Meðan engir samningar eru í gildi eru læknar ekki bundnir af því og dæmi eru miklar hækkanir. Á dögunum boðaði Orkuhúsið til að mynda stórfelldar hækkanir á ýmiss konar aðgerðum.
Ragnar Freyr Ingvarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur, segir að hækkanirnar séu óhjákvæmilegar vegna samningsleysisins. Meðan ekki næst saman, hækka greiðslur ríkisins til lækna ekki í samræmi við verðlags- og launahækkanir. Það bil neyðast sjúklingar til að brúa.