Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Nýtt lyf vonandi byltingin sem beðið er eftir

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
„Ég ætla að leyfa mér að segja að vonandi er þetta byltingin sem við höfum verið að bíða eftir,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands og öldrunarlæknir. Hún segist bjartsýn á að það séu ekki mörg ár þar til nýtt tilraunalyf gegn alzheimers-sjúkdómnum verður komið á markað.

Miðað við fyrstu niðurstöður rannsókna á lyfinu lecanemab virðist það hægja verulega á áhrifum sjúkdómsins. Frá þessu er greint í nýjasta hefti vísindaritsins New England Journal of Medicine. 

„Maður veit það af biturri reynslu fyrri ára að maður verður að stíga varlega til jarðar. En við höfum ekki séð eins lofandi niðurstöður fyrr varðandi lyf sem eiga að ráðast að rótum alzheimers-sjúkdómsins,“ segir Steinunn.

Eitthvað sem hefur ekki verið sýnt fram á áður

Sjúkdómurinn hefur verið tengdur við uppsöfnun prótíns í heila sem kallast amyloid. Lyfið virðist virka einstaklega vel gegn því prótíni. „Þetta lyf hreinsar út amyloid sem hefur myndað svokallaðar fjölliður, sem eru taldar eitraðar fyrir heilann. Með því að hreinsa þetta út hægist á einkennum sjúkdómsins samkvæmt þessari rannsókn. Það er eitthvað sem hefur ekki verið sýnt fram á áður, að þessi lyf sem hreinsa út amyloid geti líka haft svona klár áhrif á einkenni, það er það sem við erum að horfa til og fagna,“ segir Steinunn.

Svipað lyf er komið á markað í Bandaríkjunum. Það fékk bráðabirgðaleyfi fyrir einu og hálfu ári en virðist ekki vera jafn öflugt og nýja lyfið, að sögn Steinunnar.

„Við erum að vonast til að þetta lyf fái flýtimeðferð og komi hratt á markað,“ segir Steinunn og bætir við að ef frekari rannsóknir benda áfram í sömu átt kæmi henni ekki á óvart að það kæmi fljótlega til Evrópu.

„Það er erfitt að segja hvort það yrði á næsta eða þarnæsta ári en þá líka með þeim fyrirvara að það komi ekkert bakslag í þetta, þá erum við að tala um aukaverkanir og fleira.“

Áhyggjur af aukaverkunum

Aukaverkanir er einmitt nokkuð sem rannsakendur hafa áhyggjur af. Nærri 1.800 einstaklingar tóku þátt í rannsókninni. Helmingur þeirra fékk mótefnið og hinn helmingurinn lyfleysu. 17,3 prósent þeirra sem fengu nýja mótefnið fengu heilablæðingu, miðað við níu prósent þeirra sem fengu lyfleysuna.

Þá fengu 12,6 prósent þeirra sem tóku lecanemab heilabólgur, miðað við aðeins 1,7 prósent þeirra sem þáðu lyfleysuna.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV