Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Komum skemmtiferðaskipa fjölgar um 40 prósent

Mynd: RÚV / Sölvi Andrason
Á næsta ári má búast við 40 prósentum fleiri skemmtiferðaskipum til landsins. Markaðsstjóri Faxaflóahafna segir umhverfismálin ofarlega á baugi og mikilvægt að huga að mótvægisaðgerðum til að lágmarka mengun.

Skiptir máli að gera þetta á umhverfisvænan og sjálfbæran hátt

Ísland er sífellt að verða vinsælli ferðamannastaður og fólk flykkist til landsins - sífellt fleiri sjóleiðina - en með aukningu komu skemmtiferðaskipa fylgir aukin mengun. Helstu aðilar í skemmtiskipabransanum vinna nú að því að undirbúa komu skemmtiferðaskipa næsta árs og tryggja sjálfbæran vöxt.

„Það sem ég heyri og það sem ég sé hjá þeim nýju skipum sem eru að koma er að þetta skiptir mjög miklu máli og þetta skiptir miklu máli hjá viðskiptavinunum að þetta sé gert  á umhverfisvænan hátt og sjálfbæran hátt,“ segir Sigurður Jökull, markaðsstjóri Faxaflóahafna.

Umhverfiseinkunnakerfi sýnir jákvæða þróun

Sigurður segir landtengingar mikilvægan þátt í sjálfbærum vexti en hafnir landsins séu vissulega mislangt komnar í því ferli. Þá sé hinn svokallaði Environmental Port Index ekki síður mikilvægur hluti þróunarinnar í átt að umhverfisvænni skemmtiskipaiðnaði. „Skip fær umhverfiseinkunn eftir legu í höfn og út frá þeirri einkunn eru lagðar á álögur eða ívilnun í gjaldskránni og þetta leiðir til þess að, og það eru tölur frá Noregi sem hafa sýnt fram á það að umhverfishegðun skipa í höfn er betri eftir að kerfið var tekið upp og skip sem eru ekki alveg jafn góð hafa bara sleppt því að koma.“

Nú eru Faxaflóahafnir þær einu sem hafa innleitt einkunnakerfið, en stefnt er á að Akureyrarhöfn fylgi árið 2024. 

Farþegaskipti að vaxa í vinsældum

Á næstu árum megi því búast við auknum farþegaskiptum í Faxaflóahöfnum, þar sem farþegar fljúga til landsins og sigla í burtu eða sigla til landsins og fljúga í burtu. „Þetta er mjög gott fyrir allt hagkerfið í kring um höfnina hjá okkur. Þetta er að þýða kannski þrjár til fjórar gistinætur fyrir hótelin í kring, afþreyingu, veitingastaðir o.s.frv.,“ segir Sigurður.