Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hvammsvirkjun þokast nær með leyfi Orkustofnunar

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Landsvirkjun þokast nær því að byrja framkvæmdir við Hvammsvirkjun í Þjórsá nú þegar leyfi Orkustofnunar er handan við hornið. Oddviti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi segir þurfa að vinna málið vel áður en leyfi sé veitt.

Landsvirkjun sótti fyrst um virkjunarleyfi til Orkustofnunar í júní í fyrra. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, væntir þess að fá það í hendurnar á næstu vikum. Eftir það þarf að sækja um framkvæmdaleyfi til Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Rangárþings ytra, sem liggja að ánni þar sem virkjunin er fyrirhuguð. Síðan tekur stjórn Landsvirkjunar endanlega ákvörðun.

„Við teljum að það sé ekkert því til fyrirstöðu að þetta klárist á næstu mánuðum.“ 

Hörður bindur vonir við að framkvæmdir hefjist á næsta ári og að virkjunin verði komin í gagnið tvö þúsund tuttugu og sex. Fyrirséð er að framkvæmdin verði dýrari en lagt var upp með. 

„Það mun að sjálfsögðu hafa áhrif á endanlegu ákvörðunina.“ 

Mikil mótstaða hefur verið við Hvammsvirkjun sem á að geta framleitt allt að níutíu og þrjú megawött á ári. Uppistöðulón hennar, Hagalón, verður um fjórir ferkílómetrar. 

Bæði Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Rangárþing ytra hafa samþykkt deiliskipulag sem gerir ráð fyrir virkjuninni. 

Haraldur Þór Jónsson oddviti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi segir ekki tryggt að sveitarfélagið veiti framkvæmdaleyfi fyrir virkjuninni sem verði í miðri byggð og hafi mikil áhrif á umhverfið. 

„Það er ekki mikil sátt hjá öllum þannig það verður verkefni að fara yfir öll gögnin og eiga samtal við íbúa og eiga samtal við Landsvirkjun. Það þarf að vinna þetta vel.“ 

Eggert Valur Guðmundsson, oddviti í Rangárþingi ytra, segir margt eftir áður en leyfi sé veitt. Hann meti það þó sem svo að velvilji sé innan sveitarstjórnar og að í sveitarfélaginu sé almennt jákvæð afstaða gagnvart virkjuninni.