Snjómoksturstæki og önnur vetrarþjónustutæki Vegagerðarinnar hafa ekið meira en helmingi minna það sem af er vetri en á sama tíma en í fyrra. Um miðjan nóvember í fyrra höfðu tæki í vetrarþjónustu Vegagerðarinnar ekið rúma 140 þúsund kílómetra. Í ár er kílómetrafjöldinn aðeins rúm 63 þúsund og því innan við helmingur af akstrinum í fyrra.
Tún enn græn fyrir austan
Óvenjuleg hlýindi eru nú á landinu og tún eru enn græn á að líta. Lægð djúpt suðvestur af landinu beinir heitri tungu yfir landsmenn í dag. Það kólnar á morgun en verður áfram milt. Víða um land má líta ýmislegt óvenjulegt miðað við árstíma.
Hér á Egilsstöðum er níu stiga hiti og á Seyðisfirði er hitinn ellefu stig. Á Austurlandi er ófrosin jörð eftir hlýindin það sem af er vetri. Þetta gerir það að verkum að enn er hægt að stunda jarðvinnu og garðyrkju má segja. Og á bænum Setbergi í Fellum stendur til að skera iðagrænar þökur á morgun.
Þökulagt í desember
Helgi Bragason bóndi segir að þetta sé mjög óvenjulegt um mánaðamótin nóvember-desember. Það frysti reyndar duglega í gær og Helgi var búinn að stinga þökuvélinni inn í skemmu, taldi sig hættan fyrir veturinn en þá hlýnaði skyndilega og pantanir héldu áfram að berast.
Helgi ætlar að taka þökuvélina aftur út í dag og halda áfram að skera. Þessar þökur eiga að fara á leikskólalóð á Reyðarfirði og á lóðir í íbúðahverfum í Neskaupstað og á Fáskrúðsfirði. Það verður sem sagt þökulagt í Fjarðabyggð í byrjun desember.