Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Græn tún, ferðamenn í tjöldum og þökulagt í desember

30.11.2022 - 12:34
Mynd: Sölvi Andrason / RÚV
Hlýjasta nóvembermánuði það sem af er þessari öld lýkur með hálfgerðri hitabylgju. Ellefu stiga hiti var á Seyðisfirði í morgun. Enn er verið að skera þökur og þökuleggja fyrir austan og enn dvelur fólk í útilegu á tjaldstæðinu á Hömrum við Akureyri.

Snjómoksturstæki og önnur vetrarþjónustutæki Vegagerðarinnar hafa ekið meira en helmingi minna það sem af er vetri en á sama tíma en í fyrra. Um miðjan nóvember í fyrra höfðu tæki í vetrarþjónustu Vegagerðarinnar ekið rúma 140 þúsund kílómetra. Í ár er kílómetrafjöldinn aðeins rúm 63 þúsund og því innan við helmingur af akstrinum í fyrra. 

Tún enn græn fyrir austan 

Óvenjuleg hlýindi eru nú á landinu og tún eru enn græn á að líta. Lægð djúpt suðvestur af landinu beinir heitri tungu yfir landsmenn í dag. Það kólnar á morgun en verður áfram milt. Víða um land má líta ýmislegt óvenjulegt miðað við árstíma.

Hér á Egilsstöðum er níu stiga hiti og á Seyðisfirði er hitinn ellefu stig. Á Austurlandi er ófrosin jörð eftir hlýindin það sem af er vetri. Þetta gerir það að verkum að enn er hægt að stunda jarðvinnu og garðyrkju má segja. Og á bænum Setbergi í Fellum stendur til að skera iðagrænar þökur á morgun. 

Þökulagt í desember

Helgi Bragason bóndi segir að þetta sé mjög óvenjulegt um mánaðamótin nóvember-desember. Það frysti reyndar duglega í gær og Helgi var búinn að stinga þökuvélinni inn í skemmu, taldi sig hættan fyrir veturinn en þá hlýnaði skyndilega og pantanir héldu áfram að berast.

Helgi ætlar að taka þökuvélina aftur út í dag og halda áfram að skera. Þessar þökur eiga að fara á leikskólalóð á Reyðarfirði og á lóðir í íbúðahverfum í Neskaupstað og á Fáskrúðsfirði. Það verður sem sagt þökulagt í Fjarðabyggð í byrjun desember. 

Mynd með færslu
 Mynd: Amanda Guðrún Bjarnadóttir - RÚV
Við tjaldsvæðið að Hömrum í dag.

Enn gist á tjaldsvæði í Eyjafirði

Veturinn hefur verið mildur og nánast snjólaus á Norðurlandi. Sem leggst misvel í fólk, sumir sakna þess til dæmis að fara á skíði, en í ljósi hlýindanna stefnir Hlíðarfjall ekki á opnun fyrr en um miðjan desember.

En þetta langa haust hefur komið sér vel á tjaldsvæðinu Hömrum á Akureyri, þar sem um tíu manns hafa gist hverja nótt í mánuðinum, eða um helmingi fleiri en í nóvember í fyrra.  Ásgeir Hreiðarsson framkvæmdastjóri tjaldsvæðisins, segir erlendu ferðamennina almennt ekki láta veðrið stoppa sig, en veturinn hafi óneitanlega verið þægilegri en oft áður.

„Það er ótrúlega hlýtt miðað við árstíma og það sem munar fyrir okkur töluvert er að þurfa ekkert að hugsa um að moka snjó. Við náðum að prófa snjóruðningstækin örlítið en það var varla það næðist sko,“ segir Ásgeir.

Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Frá Hólmavík í dag.

Hitinn í kringum 15 gráður

Í dag hefur hitinn verið mestur í Tíðaskarði í Kjós eða 14,9 gráður. Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar. Kaldast á láglendi var við Végeirsstaði í Fnjóskadal og mældist þar 5,7 stiga frost.

Þá hefur nokkuð blásið í dag. Vindhraðinn hefur í dag mælst 25 metrar á sekúndu í Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Enn hvassara er í Kerlingafjöllum eða 39 metrar.

Það hefur líka rignt á menn og málleysingja í dag. Á Kvískerjum hefur verið 78 millimetra úrkoma. Í Bláfjöllum mælist úrkoma 49 millimetrar og á Hellisheiði 28 millimetrar. 
 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Olofre's picture
Ólöf Rún Erlendsdóttir
agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV