Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Enn samningavon meðan boðað er til funda

Mynd: RÚV / RÚV
Mikil fundahöld voru í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag. Fulltrúar Starfsgreinasambandsins og samflots iðnaðar- og tæknifólks hafa fundað með atvinnurekendum til að kanna hvort eygja megi samningavon fyrir jól. Fundi lauk undir kvöld og hefur nýr fundur verið boðaður á morgun.

Hljóðið í fundarmönnum var betra en oft áður þegar fréttastofa náði tali af þeim við kvöldmatarleyti í dag.

Halldór Benjamín Þorbergsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, segir viðræðurnar strembnar en meðan þær standi yfir sé von. Hann vill ekkert gefa upp um þær kjarabætur, sem ræddar eru. Ekki heldur hvort stefnt sé að því að semja um prósentuhækkanir eða fastar krónutöluhækkanir.

Formaður Eflingar, sem semur upp á eigin spýtur, hefur lagt áherslu á fyrrnefndu leiðina enda gagnast hún tekjulágum hópum frekar.

Vill semja fyrir jól

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, bindur vonir við að það takist að landa samningum fyrir jól. „Ábyrgð okkar er mikil því það er töluverður hópur lágtekjufólks sem nær ekki endum saman frá mánuði til mánaðar,“ segir hann.

Boðað hefur verið til annars fundar í fyrramálið og ríkissáttasemjari segir alla samningamenn fara heim með verkefni á koddann. „Það eru allir með hluti til að velta fyrir sér til þess að ræða frekar aftur á morgun.“

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins og forseti ASÍ, segir ýmislegt hafa verið rætt í dag. En það sé erfitt að segja til um hvort viðsemjendur hafi þokast nær hver öðrum. „Þetta er verulega flókin staða sem er komin upp og við verðum bara að halda áfram og sjá hvað morgundagurinn leiðir af sér.“

Ólöf Rún Skúladóttir
Fréttastofa RÚV
alexanderk's picture
Alexander Kristjánsson