Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Veðurstofan varar vegfarendur við vindhraða

29.11.2022 - 06:47
Mynd með færslu
 Mynd: Unsplash
Spáð er vaxandi suðaustanátt í dag 10-18 m/s og skýjað verður með köflum en þurrt að mestu. Síðdegis verður suðaustan hvassviðri á sunnan- og vestanverðu landinu, einkum undir Eyjafjöllum og á Snæfellsnesi. Það getur verið varhugavert fyrir vegfarendur, sérstaklega ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Það fer að rigna víða um landið seinnipartinn nema á Norðausturlandi. Hlýnandi veður í dag. Núna í morgunsárið er hiti nálægt frostmarki en í kvöld verður hiti 2 til 9 stig.

Allhvös suðaustanátt á morgun með rigningu í flestum landshlutum. Búast má við talsverðri úrkomu á suðaustanverðu landinu en úrkomulítið norðaustanlands. Það verður milt í veðri með hitatölum á bilinu 5 og 10 stig. Á fimmtudag verður sunnanátt með skúrum, jafnvel slydduéljum á Vestfjörðum en lengst af þurrt norðaustantil.

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV