Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Túristar snæddu úti í hlýjasta nóvember aldarinnar

29.11.2022 - 08:12
Mynd með færslu
 Mynd: Finnbogi Helgason - Aðsend mynd
Nóvembermánuður er líklega sá hlýjasti sem komið hefur á öldinni, segir veðurfræðingur. Í höfuðborginni var hlýrra í nóvember en október.

Fyrir skemmstu birti ljósmyndarinn Kjartan Þorbjörnsson, Golli, myndskeið á Twitter sem sýndi erlenda ferðamenn á Skólavörðustíg í Reykjavík á nóvemberkvöldi. Það sem heyrði til tíðinda var að klukkan var farin að ganga níu að kvöldi og ferðamennirnir sátu léttlæddir að úti og borðuðu.

Já, nóvember var hlýr í ár og það veit Trausti Jónsson veðurfræðingur. 

„Meðalhiti hérna í Reykjavík er svona hátt í þrjú stig yfir meðallagi og nærri því fjögur stig yfir meðallagi á Akureyri.“

Kannski einn hlýjasti nóvembermánuður á öldinni, eða hvað?

„Já, það er það svona víða um land. Það er svona helst á Austfjörðum þar sem þetta hefur verið í öðru sæti.“

Trausti segir að vanalega fylgi nóvemberhlýindum mikil úrkoma. Svo hefur ekki verið nema á Austfjörðum, þar sem mikið hefur rignt. Þá hafa hlýindum oft fylgt meira sólskin en því er ekki að heilsa í ár. 

Er eitthvað útlit fyrir að desember verði jafn hlýr?

„Við getum nú ekkert um það sagt. Þessar langtímaspár, þær svona eru skiptar um hvort það kólni eða ekki.“

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV