Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sunak: „Gullöldin í samskiptum við Kína er liðin“

29.11.2022 - 12:16
epaselect epa10335526 British Prime Minister Rishi Sunak speaks at the Lord Mayor's Banquet in London, Britain, 28 November 2022. The Lord Mayor's Banquet is an annual ceremony that marks the change of Lord Mayors of the City of London. The event includes speeches from Prime Minister, Archbishop of Canterbury and Lord Mayor about the major world affairs and City of London's future.  EPA-EFE/TOLGA AKMEN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mikill viðbúnaður lögreglu vegna mótmælanna í Kína síðustu daga virðist hafa kæft þau að mestu leyti. Lögreglan hefur girt af mótmælasvæði, handtekið mótmælendur og gert húsleit hjá þeim. Rishi Sunak forsætisráðherra Bretlands gagnrýnir stjórnarhætti í Kína harðlega og gefur í skyn breytingar í samskiptum við landið.

„Við skulum hafa það á hreinu. Hin svokallaða gullöld í samskiptum við Kína er liðin, sem og sú einfeldningslega hugmynd að viðskipti leiði sjálfkrafa til félagslegra og pólitískra umbóta,“ sagði Rishi Sunak á árlegum kvöldverði borgarstjórans í Lundúnum í gærkvöld. Hann sagði jafnframt að Kínverjar storki hefðbundnum gildum og hagsmunum meira eftir því sem forræðishyggja þar eykst.

Sunak vakti einnig athygli á því að í stað þess að hlusta á mótmælendur hafi þeir ákveðið að veita meiri mótspyrnu, jafnvel ráðast á fréttamann frá breska ríkisútvarpinu. Hann virðist ekki hafa látið sitja við orðin tóm, því í morgun var tilkynnt að kínverska kjarnorkufyrirtækið CGN, sem hefur starfað við byggingu nýs kjarnorkuvers í Sizewell, hafi verið sett til hliðar og svipt tuttugu prósenta hlut sínum í verkinu.

Sunak vísaði þarna í atburði síðustu klukkustunda, þar sem lögreglan hefur reynt að kæfa mótmæli gegn hörðum sóttvarnaaðgerðum áður en þau fara af stað, og gengið ágætlega. Meðal annars voru fyrirhugaðir mótmælastaðir í Peking og Sjanghæ ýmist umkringdir af lögreglu eða girtir af. Minnst fjórir mótmælendur hafa verkið handteknir, lögreglan hefur hringt í mótmælendur og krafist upplýsinga um ferðir þeirra og víða hefur verið gerð húsleit til að kanna hvort mótmælendur séu með svokallaðar VPN-tengingar heima hjá sér, en kínversk stjórnvöld geta ekki haft eftirlit með þeim.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV