Þurfum að ræða ofbeldi skýrar við unglinga
Helgi segir mikilvægt að anda í takt við samfélagið. Aukinnar ofbeldisumræðu hafi orðið vart undanfarið. Það sé samtal fyrir samfélagið allt. Þá þurfi að taka upp aðferðir á borð við þær sem var beitt til að stemma stigu við unglingadrykkju og löngum útivistartíma.
„Þarna þurfum við bara að standa saman um að taka umræðuna um ofbeldi og hvað telst ofbeldishegðun og hvað ekki, miklu skýrar með unglingunum okkar. Þarna þurfum við að taka saman höndum; foreldrar, skólar, félagsmiðstöðvar og íþróttahreyfingin, og allir aðilar sem koma að starfi með börnum.“
Með engum hætti stefna borgarinnar
Aðspurður um almenna stefnu borgarinnar þegar kemur að öryggisgæslu í skólum segir Helgi ekki til skoðunar hjá borginni að beita slíkum aðgerðum almennt. Hann segir þó önnur dæmi þar sem öryggisverðir hafi verið ráðnir í tengslum við skólastarf borgarinnar og nefnir í því samhengi flutning hluta Hagaskóla í Ármúla í haust.
„Þá var eitt af því sem við gerðum að setja öryggisvörð þar, til þess að aðstoða bara við umferðargæslu, svo að krakkarnir væru nú ekki að fara út á götuna, heldur inn í húsnæðið í Ármúlanum. Eins líka ef einhver vá myndi skapast þar út af mögulegum eldsvoða, þá var hann líka á staðnum til þess að aðstoða og stýra í slíkum tilvikum. Þetta er mjög sjaldgæft að svona hafi komið upp, og með engum hætti stefna borgarinnar í skóla- og frístundastarfi og þess vegna er þetta eins og þetta er; einangrað tímabundið tilvik sem skapaðist út af manneklu í viðkomandi skóla.“