Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ótrúlega fundvís á óþægilegar hversdagslegar aðstæður

Mynd: RÚV / RÚV

Ótrúlega fundvís á óþægilegar hversdagslegar aðstæður

29.11.2022 - 10:00

Höfundar

„Hvað er verra heldur en að koma inn á heimili einhvers til að skoða húsið þeirra, í heimili ókunnugs fólks? Svo tekur hann það upp um nokkur stig með því að láta fólkið vera jafn vonlaust í lífinu og það gjarnan er hjá honum, og ekki síst í þessari bók,“ segir Þorgeir Tryggvason um nýja skáldsögu Braga Ólafssonar, Gegn gangi leiksins.

„Bragi er náttúrulega ótrúlega fundvís á að setja fólk í algjörlega hversdagslegar og kunnuglegar aðstæður sem valda stöðugum núningi og óþægindum fyrir alla tilheyrandi,“ segir Þorgeir Tryggvason. „Hvað er verra heldur en að koma inn á heimili einhvers til að skoða húsið þeirra, í heimili ókunnugs fólks? Svo tekur hann það upp um nokkur stig með því að láta fólkið vera jafn vonlaust í lífinu og það gjarnan er hjá honum, og ekki síst í þessari bók,“ heldur hann áfram um nýja skáldsögu Braga Ólafssonar, Gegn gangi leiksins.  

Kynlegir kvistir og núningur þeirra á milli  

Ljóðskáldið Svanur Bergmundsson dvelur í íbúð systur sinnar í Þingholtunum á meðan beðið er eftir því að íbúðin seljist. Ungt par bankar upp á og vill skoða íbúðina. „Þetta gamla skáld sem hírist þarna í íbúð systur sinnar er ekki allra og það myndast fljótlega núningur,“ segir Þorgeir.  

Fleiri kynlegir kvistir bætast í persónuflóruna. „Svo hrúgar Bragi bara fleira fólki inn; vinir hans gamlir, bróðir mannsins sem ætlar að kaupa íbúðina og svo blandast inn í þetta fótboltaleikur rithöfunda og útgefanda, sem stendur fyrir dyrum, og gamla skáldið ætlar að vera með í því.“ 

Skemmtilegur snúningur um miðbik bókar 

Í fyrri hluta bókar er sögð saga skáldsins Svans og íbúðarinnar sem er á sölu. Um miðbik bókar kemur eins konar leikhlé og í seinni hluta hennar breytist tónn bókarinnar. „Mjög skemmtilegur snúningur,“ segir Þorgeir. Í seinni hluta bókarinnar er frásögn í þriðju persónu en fyrri hlutinn í fyrstu persónu. 

„Fyrri þátturinn þarna er dæmigerður Bragi,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir. „Þetta fólk kemur að skoða íbúð og ég hugsaði, kannski fara þau aldrei og komast aldrei út úr íbúðinni, af því að þetta er Bragi.“ Bókin fer í ýmsar áttir og Kolbrún segist hafa verið hrifnari af fyrri hlutanum. „En svo kemur fótboltaleikurinn og þá fannst mér dálítið eins og það væri bara annar höfundur á ferð. Það var ekki Bragi minn, það var einhver allt annar Bragi.“ 

Óvæntur endir  

Gagnrýnendur eru sammála um að endirinn sé óvæntur. „Já aldrei þessu vant þá vill maður ekki ljóstra því upp hvernig bók eftir Braga Ólafsson endar, það gerist ekki á hverjum degi,“ segir Þorgeir. „Eigum við ekki að segja eins og við segjum svo gjarnan, aðdáendur hans verða ekki fyrir vonbrigðum.“ 

Fjallað var um Gegn gangi leiksins í Kiljunni.  

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Dauði flugu varð til þess að Bragi fann skáldskapinn

Bókmenntir

Alvöruskáldskapur þrunginn harmi og húmor

Bókmenntir

Íðilfagur Öfugsnáði gengur fullkomlega upp

Bókmenntir

Sjúkdómar Reykjavíkur í ljóðabók Braga