Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Leikskólabörn leika inni vegna svifryks á Akureyri

29.11.2022 - 17:12
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Mikið svifryk hefur legið yfir Akureyrarbæ í dag og leikskólabörnum verið haldið inni vegna mengunarinnar. Níu sinnum í nóvember hefur svifryk á Akureyri mælst rautt á loftgæðamæli Umhverfisstofnunar.

Hitinn á Akureyri í dag hefur verið um og undir frostmarki, göturnar auðar, þurrar og algert logn. Þó veðrið sé ágætt til útivistar er þó ekki mælt með því að fólk stundi líkamsrækt utandyra í bænum í dag, þar sem svifryk er svo mikið að fólk gæti fundið til óþæginda í öndunarfærum.

Svifryk langt yfir mörkum Umhverfisstofnunar

Í dag klukkan þrjú mældi loftgæðamælirinn á Strandgötu hundrað sextíu og fjögur míkrógrömm svifryksagna í hverjum rúmmetra af andrúmslofti, en loftgæði teljast góð þegar sú tala er undir fimmtíu.

Andri Teitsson, formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar, segir standa til á næstu vikum að fjölga loftgæðamælum í bænum úr einum í fimm. Þá sérstaklega verði þeim stillt upp nærri leikskólum, en svifrykið bitnar einna verst á leikskólabörnum sem ekki fá að leika úti þegar mengunin mælist þetta mikil.

Fjölgun loftgæðamæla skýri ástandið

„Þannig að við áttum okkur betur á ástandinu og að það geti verið mismunandi hér og þar um bæinn og að leikskólarnir geti þá brugðist við. En auðvitað er eitt að vita hvernig ástandið er og annað er að laga það,“ segir Andri.

Hann segir bæinn hafa bætt töluvert í götusópun undanfarið, en á dögum eins og í dag sé greinilegt að það dugi hreinlega ekki til. Eftir áramót eigi að skoða af meiri alvöru hvernig hægt sé að ná til ökumanna og hvetja íbúa til að velja vistvænni samgöngumáta.

„Þá er það bílaumferðin sem er að þyrla upp rykinu og ekki síst nagladekkin, þannig við myndum gjarnan vilja beina því til ökumanna að keyra minna, keyra hægar ef þeir hafa tök á.“