Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ber ábyrgð á brunaslysi nemanda eftir eldgosatilraun

29.11.2022 - 16:40
Mynd með færslu
Skjáskot af útsendingu frá vefmyndavél rúv á Langahrygg á fjórða tímanum, aðfaranótt 27. júlí 2021 Mynd: RÚV
Reykjavíkurborg er bótaskyld eftir að 14 ára stúlka og nemandi í einum af grunnskólum borgarinnar brenndist illa þegar bekkjabróðir hennar hellti etanóli yfir „tilbúið eldfjall“ í efnafræðitíma. Hún er með þrjú áberandi ör á kviðnum eftir slysið.

Slysið varð á þemadögum grunnskólans fyrir fimm árum. Ekki kemur fram í hvaða grunnskóli þetta er.

Í dómnum kemur fram að efnafræðikennari hafi ætlað að sýna áhrif efnahvarfa með því að líkja eftir eldgosi. Hann gerði það með því að blanda saman sandi, sykri, lyftidufti og etanóli. Þegar búið var að kveikja í áttu nemendur að bíða í hálftíma eða þar til efnahvörf yrðu og tilbúna eldfjallið byrjaði að gjósa.

Kennarinn brýndi fyrir nemendum hversu hættulegt etanól væri og að enginn mætti nota það nema hann. Og það mætti alls ekki hella etanóli yfir eldfjallið þegar búið væri að kveikja í og verið væri að bíða eftir „eldgosinu“.

Kennarinn var varla fyrr búinn að leggja etanólbrúsann frá sér en að bekkjarbróðir stúlkunnar tók hann og skvetti á eldfjallið þannig úr varð eldblossi eftir talsverða spreningingu.  Við það barst eldur að kvið stúlkunnar þannig að hún hlaut skaða af. Tveir aðrir nemendur slösuðust í sprengingunni en þeir voru allir fluttir með sjúkrabíl á sjúkrahús.

Í dómnum kemur fram að úrskurðarnefnd vátryggingarmála hafi hafnað kröfu frá öðrum nemanda um að borgin bætti slysið. Taldi nefndin að kennarinn hefði mátt treysta því að nemendurnir myndu ekki snerta etanólið. 

Í kröfu sinni sagði stúlkan að gálaust hefði verið af kennaranum að geyma eða skilja eftir jafn hættulegt efni og etanól á glámbekk í kennslustund. Ekki síst þegar unnið væri með eld innanhúss.  Sjá hefði mátt hættuna fyrir að nemendur kæmust í efnið og það hefði verið fyrirsjáanleg hætta að nemendur myndi freistast til að fikta.

Borgin benti á kennarinn hefði fjörutíu ára reynslu og þetta hefði verið tilraun sem hann hefði framkvæmt ótal sinnum áður án óhapps.  Hann hefði brýnt fyrir nemendum að aðeins hann mætti nota efnið. Þrátt fyrir það hefði tiltekinn nemandi notað tækifærið þegar hann leit undan, gripið etanól-brúsann og hellt úr honum yfir tilraunina. Slysið mætti því rekja til háttsemi annars nemanda sem brotið hefði gegn afdráttarlausu banni kennarans.

Héraðsdómur taldi hins vegar að það hefði mátt koma í veg fyrir slysið á mjög auðveldan og fyrirhafnarlítinn máta. Til að mynda ef kennarinn hefði aðeins haft með sér það magn af etanóli sem þurfti í tilraunina, eins og Vinnueftirlitið hefði bent á í skýrslu sinni um slysið.  Þá hefði einnig verið hægt að afstýra slysinu ef kennarinn hefði bara tekið brúsann af borðinu þegar hann vék frá því.  

Ljóst væri að nemandinn hefði ekki orðið fyrir brunaáverkum ef samnemandinn hefði ekki náð til etanólbrúsans sem kennarinn skildi eftir án aðgæslu. Reykjavíkurborg bæri ábyrgð á þessum mistökum og væri því bótaskyld.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV