Baka vínartertu í íslenskutíma

Mynd: Landinn / RÚV

Baka vínartertu í íslenskutíma

29.11.2022 - 07:30

Höfundar

„Vínartertan hefur verið sameiningartákn Vestur-Íslendinga. Hún er alltaf bökuð fyrir jólin og á öllum stórum mannamótum þá er vínarterta það besta sem gestgjafi getur boðið upp á,“ segir Ragna Heiðbjört Ingunnardóttir, íslenskukennari við Framhaldsskólann á Laugum.

Ragna kennir valáfanga um vesturferðir Íslendinga og eitt af verkefnunum sem nemendur hennar hafa unnið er að baka vínartertu. Þetta er samt ekki matreiðsluáfangi heldur íslenskuáfangi.

„Þetta er áfangi um vesturferðir Íslendinga með áherslu á vesturíslensku. Upphafið var að reyna að vinna með íslenska málsögu og það hvað varð um íslenskuna þegar hún fór út fyrir landssteinana. En svo stækkaði áfanginn því það voru svo margir sem vissu lítið um vesturferðirnar,“ segir Ragna. 

Áfanginn, sem hefur verið kenndur í nokkur ár, er orðinn einn allra vinsælasti áfanginn í skólanum. „Þegar kennarinn hefur svona mikinn áhuga þá fáum við áhuga líka,“ segir Nikola María Halldórsdóttir, einn nemendanna. 

Ragna segir vínartertuna táknræna fyrir söguna og samband okkar við vesturheim. „Hún er hringlaga. Hún er hringurinn að sögunni. Þau fóru með uppskriftina að tertunni og hún er búin að rata heim aftur,“

Landinn fékk að fylgjast með vínartertubakstrinum