Fordómar tengdir gamla heitinu
Heiti sjúkdómsins verður breytt með nýju sjúkdómaflokkunarkerfi á næsta ári, og því hefur íslenska heilbrigðiskerfið einhvern tíma til að taka ákvörðun. Guðrún segir óráðið hvort mpox verði notað óbreytt, eins og var gert með covid-19, eða hvort pox verði þýtt sem „bóla“, eins og oft er, og forskeyti bætt við.
Orðið apabóla er bein þýðing á monkeypox, sem búið er að ákveða að breyta vegna háværra gagnrýnisradda, en talið er að fordómar og rasismi felist í orðinu. Margir höfðu áhyggjur af því að smituðu fólki fyndist það útskúfað og leitaði sér síður lækninga.
Sjúkdómurinn greindist fyrst í mönnum árið 1970 og dregur nafn sitt af veiru sem uppgötvaðist í öpum á tilraunastofu rúmum áratugi fyrr.
Apabóla er sjaldan banvæn. Helstu einkenni sjúkdómsins eru blöðrur eða sár á líkamanum, bólgur og sársauki í endaþarmi, bólgnir eða stækkaðir eitlar, hiti, höfuðverkur, vöðvaverkir og þróttleysi. Sjúklingar ná sér yfirleitt að fullu innan fárra vikna. Veiran dreifist fyrst og fremst við hvers kyns nána snertingu.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsti yfir alþjóðlegu neyðarástandi vegna sjúkdómsins í júlí. Smitum hefur fækkað síðustu mánuði en veiran hefur greinst í rúmlega hundrað löndum á þessu ári. Fimmtíu hafa dáið úr sjúkdómnum.
Heitið mpox var ákveðið eftir samræður sérfræðinga og almennings. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir orðið alþjóðlegt og að það virki vel á ensku sem og öðrum tungumálum. Bæði heitin verða notuð fyrst um sinn en að ári gerir stofnunin ráð fyrir því að hætta notkun gamla heitisins.