Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vilhelm Þorsteinsson strandaði úti fyrir Neskaupstað

28.11.2022 - 13:16
Mynd með færslu
 Mynd: Ívar Guðjón Jóhannesson
Fiskiskip Samherja, Vilhelm Þorsteinsson, strandaði við höfnina í Neskaupstað laust eftir klukkan eitt í dag. Skrúfubúnaður skipsins bilaði með þeim afleiðingum að það varð vélarvana og rak aftur á bak í strand. Búið var að losa skipið áður en klukkan sló tvö. 

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, staðfesti við fréttastofu þegar skipið strandaði að engin hætta væri á ferðum.

Skip Síldarvinnslunnar, Barði NK, náði að toga Vilhelm lausan af strandstað og naut aðstoðar björgunarskipsins Hafbjargar. 

Karl Eskil Pálsson, upplýsingafulltrúi Samherja, sagði skömmu eftir að skipið fékkst laust að líklega hefði ekkert tjón orðið. Ef eitthvað, þá væri það óverulegt.

Í tilkynningu sem birtist á vef Samherja fyrir klukkan þrjú kom fram að ekkert tjón hafi orðið en að kannað yrði hvað hefði farið úrskeiðis í vélarbúnaðinum.

Fréttin hefur verið uppfærð.

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV