Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Þeir eru búnir að gera nóg af sér“

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson - RUV
Rannsókn á árásinni sem varð á skemmtistaðnum Bankastræti Club 17. nóvember miðar vel, að sögn Margeirs Sveinssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns á höfuðborgarsvæðinu. Sex sitja nú í gæsluvarðhaldi vegna árásarinnar.

Telja sig hafa náð að stöðva skemmdarverk

Lögregla hefur nokkuð skýra mynd af árásinni sjálfri, en rannsókn miðar nú að því að upplýsa um ástæður og aðdraganda hennar. Margeir segir lögreglu telja sig hafa náð að stöðva frekari hótanir og skemmdarverk um helgina. 

„Það voru um helgina teknir þrír sem hafa réttarstöðu sakbornings og við teljum okkur hafa stoppað það,“ segir Margeir. Þá segir hann að lögregla ræði nú við ýmsa aðila sem tengjast málinu. 

„Við erum í samtölum við þá að gera þeim grein fyrir að þetta er komið gott að sinni. Þetta er svona farið að verða alveg ágætt. Þeir eru búnir að gera nóg af sér.“

Margeir segir þá sem tengjast árásinni og þá sem sitja í varðhaldi vera á öllum aldri. „Allt frá þeim sem eru að reyna að skipuleggja og svo alveg niður úr.“

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Margeir Sveinsson

Einn í gæsluvarðhaldi vegna almannahagsmuna

Heimildir herma að mennirnir hafi margir starfað saman sem dyraverðir í gegnum öryggisfyrirtæki, og margir þeirra verið samstarfsmenn á skemmtistaðnum Auto. 

„Það eru einhverjir dyraverðir í þessum hópi. En hvort þetta tengist dyravarðamarkaði erum við bara að skoða,“ segir Margeir. 

Líkt og fyrr segir eru nú sex í gæsluvarðhaldi í tengslum við árásina. Margeir segir einn þeirra í varðhaldi vegna almannahagsmuna, en hina fimm vegna rannsóknarhagsmuna. 

Stóraukinn viðbúnaður lögreglu var í miðbænum um helgina, meðal annars vegna hótana um hefndaraðgerðir. Ekkert varð af átökum og skemmtanalíf í miðborginni fór heilt yfir vel fram að sögn lögreglu.  Margeir segir að ekki stafi sérstök ógn að almenningi.

„Við viljum frekar ganga lengra en hitt við að tryggja öryggi. Það er kannski ástæðan fyrir þessu viðbragði um helgina. Við erum ekki að ráðleggja fólki að halda sig frá bænum.“